138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig á því að ein mínúta er stuttur tími. Hæstv. ráðherra kom ekki inn á spurningu mína um það hvort skoðað hefði verið að þegar ein áhætta er komin yfir 5% af landsframleiðslu verði það upplýst. Þar er um að ræða svo stóra áhættu fyrir efnahagslífið að ekki verður við unað. Síðan kom hann ekki heldur inn á það hvort mið hefði verið tekið af þingsályktunartillögu sem ég flutti um gagnsæ hlutafélög þar sem reynt er að laga alla þá agnúa sem hafa komið upp og koma upp í hverri einustu viku, frú forseti, um galla í regluverki um krosseignarhald, raðeignarhald og lán til stærstu hluthafa. Vandinn er að þetta er galli í hlutafélagaforminu og sá galli er um allan heim, ekki bara á Íslandi, krosseignarhald, raðeignarhald og lán til stærstu hluthafa. Það er spurning hvort menn geti ekki farið þá leið að hafa sérákvæði um slík fyrirtæki og kallað þau gagnsæ hlutafélög á Íslandi.