138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þessa ágætu fyrirspurn. Vitaskuld hefur þessi umræða um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka verið áberandi í Bandaríkjunum en einnig hefur talsvert verið um þetta rætt í Evrópu og hefur ekki farið fram hjá þeim sem sömdu þetta frumvarp.

Að mörgu leyti eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu mjög í þessum anda þótt ekki sé formlega gengið svo langt að skilja þarna á milli. Það eru þrengdar mjög heimildir banka sem eru þá alhliða bankar til að leggja mikið undir í einstökum viðskiptum sem er kannski það hættulegasta sem fjárfestingarbankar gera og sem menn vilja helst ekki að almennir bankar og sérstaklega þá innlánsstofnanir geri. Við herðum regluverkið og umgjörðina þannig að það verður erfiðara fyrir banka að fara út af sporinu með fjárfestingarbankastarfsemi þótt við göngum (Forseti hringir.) ekki svo langt að skilja formlega þarna á milli. Raunar má færa rök bæði með og móti því að fara þá leið.