138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé enginn ágreiningur, hvorki milli okkar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar né annarra sem hafa unnið að þessum málum, um nauðsyn þess að auka gagnsæi hvað þetta varðar, þ.e. sérstaklega varðandi eignarhald. Það er hins vegar rætt um ýmsa fleiri fleti á hugtakinu gagnsæi við rekstur bankakerfa. Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt að upplýsa skýrt hverjir fari með virkan eignarhlut, það sé ekki hægt að fela það bak við einhver óljós eignarhaldsfélög með annan fótinn eða jafnvel báða í einhverjum skattaparadísum eða í skjóli bankaleyndar í einhverjum ríkjum sem eru með bankaleynd sem erfitt er fyrir íslenska eftirlitsaðila að fá aflétt. Um þetta held ég að sé enginn efnislegur ágreiningur. Það er minn skilningur að í frumvarpinu sé þetta tryggt en vitaskuld mun það koma til hv. viðskiptanefndar sem getur þá farið yfir það sérstaklega.