138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var um mest ágæt ræða hjá hv. þingmanni þótt ég hafi ekki alveg verið sammála lokaorðunum. Varðandi þann hraða sem hann óttast að reynt verði að hafa á þessu máli get ég róað þingmanninn með því að þetta er þannig mál að hér þarf að vanda mjög vel til verka. Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur, við erum að leggja grunninn að nýju fjármálakerfi sem á að lifa mun lengur en forveri þess. Það er ekki spurning um einhverjar vikur til eða frá hvenær þarf að vera búið að ganga frá því þannig að ég bara treysti því að þingið og hv. viðskiptanefnd vinni þetta mál vel og hafi auðvitað eðlilegan forgang á sinni vinnu. Ég held að þetta sé það mikilvægt mál að það hljóti að vera í ákveðnum forgangi en það er engin sérstök tímapressa af hálfu ráðuneytisins vegna þessa máls þótt vitaskuld vonist ég til þess að það verði afgreitt áður en þingið fer í sumarleyfi.

Ég vil nýta þennan stutta tíma sem ég á eftir til að taka undir eitt af því sem hv. þingmaður sagði, ég hefði reyndar getað tekið undir fleira. Hann gerði sérstaklega að umræðuefni flækjustigið í bankakerfinu og það er tvímælalaust eitt af því sem olli þeim vandræðum sem menn eru núna að reyna að vinna úr, bæði hérlendis og erlendis, að starfsemi fjármálafyrirtækja og þær fjármálaafurðir sem þau sýsla með eru einfaldlega allt of flóknar. Það er búið að búa til alls konar vafninga, afleiður og mjög flókna samninga sem eru illskiljanlegir nema innvígðum og það er mjög erfitt að meta áhættuna af slíku. Það er hægt að færa mjög góð málefnaleg rök fyrir því að það ætti jafnvel að banna tilteknar tegundir afurða af þeirri einföldu ástæðu að það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir því fyrir fjármálafyrirtæki að vera að sýsla með þær.