138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:06]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Frumvarp þetta sýnist mér vera til mikilla bóta og til þess fallið að auka traust á fjármálakerfinu almennt. Þar er meira að segja gengið svo langt að skýra hugtök sem manni finnst að allir ættu að skilja en eru hér skýrð til að allir tali einum rómi um stjórn og tengsl í fjármálafyrirtækjum. Dæmi um slíkt er jafneinfalt orð og það hljómar, orðið „framkvæmdastjóri“. Þetta held ég að sé mjög til bóta.

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem þáverandi viðskiptaráðherra skipaði 29. desember 2008 — þannig að þetta er búið að vera lengi í smíðum — til að fara yfir lög á þessu sviði. Skipunin kom að sjálfsögðu í kjölfarið á fjármálaáfallinu sem varð á haustdögum 2008 þegar augu manna beindust að því hvort eitthvað í innlendu regluverki kynni að hafa brugðist eða hvort bæta mætti virkni þess, ekki síst með það að markmiði að komið yrði í veg fyrir að sambærilegir erfiðleikar endurtækju sig. Nefndin átti að huga sérstaklega að því hvort tilefni væri til að endurskoða ákvæði um viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja við slík fyrirtæki, töku hlutabréfa fjármálafyrirtækja sem veð gegn láni, hlutverk, hæfisskilyrði og reglur stjórna, eignarhald, takmarkanir á stórum áhættum og náin tengsl. Einnig var rætt um það að nefndin ætti að hafa til hliðsjónar þá vinnu sem færi fram á vegum Evrópusambandsins í tengslum við breytingar á reglum vegna fjármálaáfallsins og miðað var við að nefndin skoðaði tillögur og hefði til hliðsjónar tillögur Kaarlos Jännäris sem ríkisstjórnin hafði fengið til þess að fara yfir lagaumgjörð fjármálamarkaðarins.

Mig langar til að reifa nokkur atriði í þessu ágæta frumvarpi sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki nema rétt skoðað en ég hlakka til að fá tækifæri til að vinna með nánar á vettvangi hv. viðskiptanefndar.

Byrjum á takmörkunum á starfsemi starfsstöðva þar sem Fjármálaeftirlitið fær nýjar heimildir til að takmarka starfsemi einstakra starfsstöðva fjármálafyrirtækja og getur þá gripið inn í rekstur einstakra starfsstöðva þar sem einhverju kann að vera ábótavant. Það er mjög til bóta.

Þá er einnig ábyrgð innri endurskoðunar aukin. Það er lagt til að forstöðumenn innri endurskoðunardeilda uppfylli tiltekin hæfisskilyrði og að athugasemdir verði færðar til bókar hjá stjórn og starfsmannafjöldi innri endurskoðunardeildar spegli umsvif viðkomandi fjármálafyrirtækis. Ef einhverjar athugasemdir eru þarf þessi innri endurskoðun að tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins.

Þá er lögð áhersla á aukna ábyrgð og virkni áhættustýringar þar sem lagt er til að fjármálafyrirtæki skuli reglulega framkvæma álagspróf og skjalfesta niðurstöður þeirra, sem er mjög mikilvægt. Það er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að áhættustýringin fái þann viðeigandi sess í stjórnskipulagi sem tilefni er til.

Þá má nefna skuldbindingaskrá sem ætti að nýtast bæði Fjármálaeftirliti og Seðlabanka Íslands til að tengja saman stórar áhættuskuldbindingar hjá fleiri en einu fjármálafyrirtæki og einnig að leggja mat á það hvort skuldastaða einstakra stórra viðskiptamanna geti leitt til kerfislægrar áhættu. Þetta atriði hljóta allir að sjá að er til mikilla bóta.

Þá er einnig þessi möguleiki að FME geti krafist upplýsinga beint hjá aðilum sem ekki lúta eftirliti um upplýsingar um skuldbindingar þeirra og þurfa ekki að fara í gegnum fjármálafyrirtækin. Það held ég að hljóti að vera til mikilla bóta líka.

Þá eru þarna reglur um eðlilega viðskiptahætti þannig að Fjármálaeftirlitið fái auknar heimildir til að kveða á um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir. Þá hlýtur að þurfa að skilgreina hvað það er. Þó að gildandi lög kveði á um slíkt hefur vantað upp á að ákvæðin væru nægilega skýr til að hægt væri að framfylgja þeim. Þarna er enn eitt atriðið sem til bóta er.

Þá er það tímafresturinn til að afsetja eignir og ég held að það sé mjög til bóta að fjármálafyrirtækjum sé settur ákveðinn tímafrestur til að afsetja eignir þó að við þurfum sennilega að skoða þetta ákvæði enn frekar. Í gildandi lögum eru heimildir fjármálafyrirtækja til að stunda rekstur alls óskyldan fjármálastarfsemi og þar rúmast hvaða erfiðleikum það hefur verið bundið að setja fyrirtækjum stífar skorður. Sama á við um þau tilvik þegar fjármálafyrirtæki eignast eigin hlutabréf eða stofnfjárbréf. Lagt verður til að Fjármálaeftirlitið fái auknar heimildir til að knýja á um sölu. Þetta held ég að skipti miklu máli því að þetta er talsvert umdeilt atriði í samfélaginu í dag, þetta með eignir bankanna.

Þá er það bann við láni til kaupa á eigin bréfum þar sem tekið verður fyrir að veitt séu lán tryggð með veði í hlutabréfum eða stofnfjárbréfum viðkomandi lánveitanda þannig að þá þarf annað veð að vera að baki lánveitingu en bara bréfin sjálf. Með því móti gat viðkomandi fyrirtæki sýnt fram á aukinn fjárhagslegan styrk þó að það væru í raun og veru engir nýir fjármunir inni í rekstrinum. Þannig var hægt að hafa áhrif á eðlilega verðmyndun á verðbréfamarkaði. Með þessum nýju lögum er verið að reyna að koma í veg fyrir þetta þannig að auk þess að leggja blátt bann við slíkum viðskiptum verður að finna í frumvarpinu ákvæði sem koma í veg fyrir að unnt verði að fara í kringum bannregluna því að það virðist hafa verið hægt að fara í kringum ýmislegt. Hér er kveðið mjög sterkt að.

Þá eru það takmarkanir á lánum til lykilmanna, m.a. um tryggingar á lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra lykilmanna, að lagt verði til tiltekið hámark varðandi slíkar lánveitingar og Fjármálaeftirlitinu verður gert að setja reglur um hvernig staðið skuli að lánveitingum til þessa hóps þannig að viðskiptum hans og viðkomandi fjármálafyrirtækja verður sniðinn mjög þröngur stakkur.

Þá eru það áhættuskuldbindingar sem verða takmarkaðar þannig að hert verði á ákvæðum útreikninga á stórum áhættuskuldbindingum. Í frumvarpinu er lagt til að fjármálafyrirtækjum verði skylt að tengja aðila saman við útreikninga á stórum áhættum leiki minnsti vafi á tengslum. Gildandi lög taka ekki af öll tvímæli að þessu leyti.

Þá eru það reglur um virka eignarhluti, að skýrð verði betur þau viðmið sem Fjármálaeftirlitið skal hafa til hliðsjónar við mat á þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið má í raun og veru ekki samþykkja kaup viðkomandi ef óvissa er um eignarhald á t.d. eignarhaldsfélagi.

Þá eru það kröfur til lykilmanna. Það verða gerðar auknar hæfis- eða óhæðiskröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja og lagt verður til að heimildir til stjórnarsetu í öðrum fyrirtækjum verði takmarkaðar. Svo er þetta atriði með að óheimilt verði að vera með svokallaðan starfandi stjórnarformann í fjármálafyrirtæki sem er rökstutt með því að í frumvarpinu verður hert á eftirlitsskyldu stjórnar og ábyrgð. Það fer ekki vel saman að vera starfandi stjórnarformaður og hafa eftirlit með rekstri.

Þá er hér ágætt ákvæði um takmarkaðan kaupauka þar sem heimildir til kaupaukakerfis verða takmarkaðar og lagt til að einstök viðskipti megi aldrei vera grunnur kaupauka. Það sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan um að í raun og veru gátu þeir sem afla mestra tekna eða geta lánað mest út fengið ákveðinn kaupauka á þeim grunni, hér með er tekið fyrir það. Það er sem sagt heildarafkoma fyrirtækisins sem er grundvöllur og Fjármálaeftirlitið á að setja reglur um þetta kaupaukakerfi.

Þá eru það starfslokasamningar þannig að heimildir til að gera starfslokasamninga verða takmarkaðar. Þær verða að vera í formi beinna launagreiðslna og byggjast á þeim starfskjörum sem viðkomandi framkvæmdastjóri eða lykilstarfsmaður naut áður. Og mjög mikilvægt atriði hér, óheimilt verður að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra nema hagnaður hafi verið af rekstri næstliðin þrjú ár.

Þá eru það reglur um eiginfjárgrunn sem verða hertar. Þannig verða þrengdar heimildir fjármálafyrirtækja við útreikning á eiginfjárgrunni og núvirðing vegna breytinga á skilmálum skuldbindinga og áhrif skatteignar eru það sem miðað verður við þannig að raunveruleg verðmæti standi að baki útreikningnum en ekki einhver loftbóluverðmæti.

Þá eru það endurskoðunarfyrirtækin þar sem gert er ráð fyrir því að starfstími endurskoðunarfyrirtækis verði takmarkaður við fimm ár af því að vitum að endurskoðendur hafa ekki farið varhluta af þeirri gagnrýni sem hefur verið í gangi í kjölfar hrunsins og til þess að auka gagnsæi og aðhald er í frumvarpinu lagt til að skipta þurfi um endurskoðunarfyrirtæki á minnst fimm ára fresti.

Þá er einnig ákvæði til að tryggja gagnsæi við endurskipulagningu skulda fyrirtækja og rýmkaðar heimildir Fjármálaeftirlitsins til að miðla upplýsingum þrátt fyrir ákvæði um bankaleynd. Svo við aðeins ræðum um þessa bankaleynd held ég að það verði fróðlegt að ræða hana betur í hv. viðskiptanefnd. Við vitum að bankaleynd er hugtak sem á ekki upp á pallborðið í íslensku samfélagi í dag þar sem við viljum svo gjarnan hafa gagnsæi en að sjálfsögðu verðum við að taka tillit til viðskiptahagsmuna og friðhelgi einkalífs í því sambandi. Eins og ég segi er gagnsæi og sem mest uppi á borðum auðvitað það sem við viljum svo gjarnan sjá.

Ég held að ég hafi farið yfir helstu atriði þessa frumvarps og hlakka til að skoða það betur í hv. viðskiptanefnd. Ég er viss um að það eru ákveðin atriði sem má skoða betur og gott að vita til þess að til þess gefst góður tími.