138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög ánægður að heyra þessa ræðu, þetta var gott innlegg inn í umræðuna sem þyrfti að vera mikil og ég sakna þess að hún sé ekki meiri, en það er náttúrlega ekki við hv. þingmann að sakast.

Hún nefndi bankaleyndina. Það er efni sem hefur verið mikið til umræðu. Það er ljóst að amma gamla vill ekki láta börnin sín eða aðra vita að hún eigi einhverja aura í banka og þetta er kannski grundvallaratriðið af hverju menn vilja hafa bankaleynd. Fólk vill geta átt eignir sínar í friði fyrir börnum, sem alltaf eru í vandræðum með peninga, eða vinum. Eins er mikilvægt að leynd sé yfir fjárhagsstöðu þeirra sem gera tilboð í fyrirtæki.

Svo koma hinir hagsmunirnir þegar fjármunir sem um er að ræða eru svo miklir og svo stórir að áhættan af þeim fari jafnvel að hrista upp í heilu þjóðfélagi, eins og gerðist hér, hristi ekki bara upp í því heldur setti allt bankakerfið á hausinn. Þá er það spurningin hvort þeir hagsmunir séu ekki miklu ríkari en hagsmunirnir um bankaleynd.

Ég vil spyrja hv. þingmann sömu spurningar og ég spurði hæstv. ráðherra, hvort til greina kæmi að hafa bankaleyndina eins og gengur og gerist um allan heim þar til þetta er farið að nálgast einhver 5% t.d. af þjóðarframleiðslu. Þá finnst mér vera búið með bankaleyndina og annað slíkt og menn eigi bara að vita af þessu, að ef þeir fara yfir 5% af þjóðarframleiðslu í skuldum við banka, einn eða fleiri, sé það upplýst og það sé bara hreinlega þjóðaröryggi sem liggur að baki sem gengur lengra en kröfurnar um bankaleynd.