138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka stjórnarandstæðingum fyrir að minnast eins árs afmælis ríkisstjórnarinnar sem við fögnum í dag af heilum huga.

Hvað varðar dagskrá þingsins í dag vil ég að það komi skýrt fram að ég geri engar athugasemdir við hana. Það er ekki þannig, frú forseti, að einhver þingmál, frumvörp eða þingsályktunartillögur eða annað það sem rætt er og afgreitt á hinu háa Alþingi sé ómerkilegra en annað — nema kannski að þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, og kemur það kannski ekki mjög mikið á óvart, finnist náttúruverndarmál, umhverfismál og norrænt samstarf ekki skipta neinu máli og vera ómerkileg þingmál. [Háreysti í þingsal.] Nú er komið að því að ræða um náttúruverndaráætlun sem hefur beðið allt of lengi. Það er brýnt og það er gott mál. Þrjú nefndarálit hið minnsta liggja fyrir (Forseti hringir.) og menn hafa tækifæri til að gera grein fyrir skoðun sinni á náttúruverndaráætlun hér á eftir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)