138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:17]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til þess að lýsa yfir vonbrigðum með þá umræðu sem hér á sér stað.

Ég vil á sama tíma hrósa sérstaklega forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og hv. þm. Bjarna Benediktssyni, fyrir þátttöku í í það minnsta einhverju lausnarferli á því erfiða máli sem við höfum fengist við á þessu þingi á þessum vetri. Það er vissulega vonarglæta í því fyrir landsmenn að sjá að stjórn og stjórnarandstaða séu að reyna að vinna málið saman með þverpólitískum hætti.

Ég hafði satt best að segja vonað að það væri merki um breytt vinnubrögð hér í þinginu líka, að menn gætu látið af slíkri smámunasemi sem birtist í þeim hrópum og óhljóðum sem menn láta frá sér fara yfir dagskrá þingsins, ekki stærra máli en því. Það hlýtur að vera hægt að semja um það með einhverjum hætti án þess að menn komi hingað upp og (Forseti hringir.) fari með gífuryrði út af slíku.