138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil hvetja hv. þingmenn til þess að láta þessari umræðu um fundarstjórn forseta lokið að sinni og hefjast handa við þingstörfin. Hér liggur fyrir dagskrá þessa fundar. Eins og komið hefur fram eru á dagskránni ýmis mál sem hafa verið til umfjöllunar í þingnefndum og eru tilbúin til umræðu. Menn geta að sjálfsögðu skipst á skoðunum og haft ólíka sýn á þau mál sem eru á dagskrá, það er eðlilegt. Menn hafa tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þeirri umræðu sem hefur verið boðuð.

Ég man að í kringum 20. janúar í fyrra kom þing saman eftir jólahlé og það var líka allmikil umræða um það mál sem sett var efst á dagskrána af hálfu þáverandi hæstv. forseta Alþingis, brennivín í búðir, og vakti að sjálfsögðu mikla gagnrýni miðað við það ástand sem þá var í samfélaginu. Núna liggja fyrir beiðnir um utandagskrárumræðu, annars vegar um stöðu efnahagsmála og hins vegar um fjármál heimilanna, og þess er að vænta að þær umræður (Forseti hringir.) komist á dagskrá í þessari viku. Það hefur áreiðanlega gerst áður að utandagskrárumræða hafi frestast um einn dag eða tvo af sérstökum ástæðum eins og varð um þá (Forseti hringir.) umræðu sem nú er rætt um að fari fram um stöðu efnahagsmála.