138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. stjórnarþingmenn koma hingað upp og reyna að þagga niður í okkur stjórnarandstöðuþingmönnum þegar við gerum athugasemdir við þá dagskrá sem fyrir liggur. Brennivín í búðir var tekið af dagskrá að beiðni málshefjanda, það var tekið af dagskrá og við erum að hvetja til þess að dagskrá verði breytt.

Það er nefnilega full ástæða fyrir því, virðulegi forseti, að ræða allt önnur mál. Ég vil vitna í yfirlýsingar frá ASÍ sem komu út í síðustu viku, þar sem segir m.a.:

„Það eru mikil vonbrigði og í raun grafalvarlegt hvað ríkisstjórnin hefur sýnt lítinn áhuga á að nýta vilja aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna til samstarfs um að ýta verklegum framkvæmdum úr vör eins og rætt var um strax sl. sumar.“

Áfram segir frá miðstjórnarfundi ASÍ:

„að megn óánægja sé með áhugaleysi bæði stjórnar og stjórnarandstöðu á framgangi stöðugleikasáttmálans, sáttmála sem margir litu á sem tímamótasamkomulag sl. sumar sem átti að leggja grunn að nýrri sókn í efnahags- og atvinnumálum. Nú vill ríkisstjórnin sem minnst af króganum vita, það er óásættanleg staða þegar atvinnuleysi fer vaxandi og sífellt fleiri heimili stefna í þrot. (Forseti hringir.) Aðgerða er krafist.“

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að taka þessi mál á dagskrá. Það er full ástæða til að hlusta á kall samfélagsins eftir aðgerðum (Forseti hringir.) í þágu heimila og fyrirtækja. Ég frábið mér (Forseti hringir.) að hv. stjórnarþingmenn komi hingað upp og reyni (Forseti hringir.) að þagga niður í málflutningi okkar til varnar heimilum landsins.