138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég gat einfaldlega ekki á mér setið þegar hv. stjórnarliðar komu hingað upp til þess að ræða um fundarstjórn forseta og tala um hávaða, hróp og köll hjá núverandi stjórnarandstöðu. Ég vil minna hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á það að fyrir rúmu ári stóðu þeir sömu þingmenn hér uppi og hrópuðu: Vanhæf ríkisstjórn! Það varð að gera hlé á þingfundum Alþingis fyrir hrópum og köllum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hvað gerist svo hér þegar sá flokkur er kominn í ríkisstjórn, hvað bíður okkar ári síðar eftir að Alþingi hefur ekki komið saman í einn mánuð? Það er ekkert frumkvæði hjá ríkisstjórninni. Ég spyr frú forseta: Er að virkilega svo að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hafi ekki haft frumkvæði að því að ræða hér á fyrstu dögum um stöðu skuldugra heimila, um stöðu atvinnulífsins, um stöðu efnahagsmála frekar en um málefni Vestnorræna ráðsins svo ágætt sem það er? (Forseti hringir.) Getur það verið, frú forseti, að ekkert frumkvæði hafi komið fram frá ríkisstjórninni um umræðu um stöðu heimila og fyrirtækja í landinu?