138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur inna hæstv. forseta eftir því hvort ríkisstjórnin hafi sýnt eitthvert frumkvæði í því að ræða um málefni skuldugra heimila í landinu, um málefni atvinnulífsins og hvernig við ætlum að stuðla að þessari endurreisn sem ríkisstjórnin talar um í annarri hverri setningu.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason minntist þess að nú væri ár frá því að þessi ríkisstjórn hefði tekið við og hver dagskráin hefði verið í miðju hruninu. Nú erum við komin í endurreisnartímabilið, tímabil þar sem er kallað á okkur þingmenn að standa saman og ræða þau mál sem skipta heimilin og atvinnulífið í landinu máli. Þau mál eru ekki á dagskrá þingsins í dag.

Það er eðlileg gagnrýni, þegar krafa er um það í þjóðfélaginu að við stöndum saman og ræðum mál sem skipta heimilin einhverju raunverulegu máli, skipta atvinnulífið einhverju raunverulegu máli, að þá skuli Alþingi koma saman eftir mánaðarlangt frí og ræða um þau mál sem eru á þessari dagskrá, mál (Forseti hringir.) sem snerta ekki beint skuldug heimili eða fyrirtækin í landinu, eitthvað sem við þurfum að ræða hið fyrsta á vettvangi Alþingis.