138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að fá tækifæri til að ræða stöðuna í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það eru alvarleg tíðindi vissulega þegar boðaðar eru uppsagnir af þeirri stærðargráðu sem við heyrðum í fréttum nú um helgina og ég harma það.

Ég vil segja varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um fundahöld í heilbrigðisráðuneytinu að þangað var enginn þingmaður boðaður sérstaklega á fund. Þessi fundur var haldinn að beiðni viðkomandi þingmanna eins og oftast og nær alltaf er þegar slíkir fundir eru haldnir. En ég fagna því að fá einnig tækifæri til að hitta stjórnarandstöðuþingmennina í Suðurkjördæmi, sem mér skilst að hafi óskað eftir slíkum fundi á morgun og ég vona að hann verði með sama hætti og fundur okkar var á föstudaginn og lesa má um í mjög svo góðu viðtali í Víkurfréttum við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur.

Ég vil taka fram að ég hef setið mjög marga fundi með stjórnendum, með starfsmönnum, með sveitarstjórum og bæjarstjórum þar syðra og með hollvinum vegna stöðunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Vandinn er vissulega mikill þar ekki síður en annars staðar. Heilbrigðisstofnununum var gert að skera niður um 6,5% á síðasta ári og 5,1% á þessu ári á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Ég vil mótmæla því sem fullyrt er að niðurskurðurinn til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sé meiri en almennt gerist á heilbrigðisstofnunum og að þar sé vitlaust gefið. Ég vona að við getum farið yfir það í góðu tómi á morgun.

Ég vil líka segja að það er mjög mikill og alvarlegur misskilningur sem kemur fram í viðtali við hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur í útvarpinu í morgun um að loka eigi á almenna læknisþjónustu og hafa bara neyðarvakt á Suðurnesjum. Þetta er rangt eins og kom fram í yfirlýsingu frá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í hádeginu.