138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[15:42]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeim lögum sem samþykkt voru í haust var gengið út frá þeirri meginreglu að greiðslugeta skuldara og veðrými eigna ætti að ráða meðferð skuldamála og verið er að vinna að því að koma því ferli í farveg. Það er sú leiðsögn sem löggjafinn hefur veitt. Að öðru leyti er mjög mikilvægt til að greiða fyrir meðferð þessara skuldamála að styrkja réttarstöðu skuldara þannig að skuldarar hafi fleiri spil á hendi í samningum við sína banka og kröfuhafa og þurfi ekki að sæta afarkostum þeirra og eigi svigrúm til að geta með skilvirkum hætti fengið lausn á sínum málum. Það eru kannski þeir þættir sem við erum að horfa á núna í frekari lagabreytingum, styrkja greiðsluaðlögunarferlið enn frekar til að skapa þar sterkari samningsstöðu fyrir skuldara þegar þeir eru að semja við kröfuhafana.