138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Vitaskuld er það ekki markmið ríkisstjórnarinnar að auka á óvissu en við lifum á óvissutímum og það verður að greiða úr ýmsum flækjum með ýmsum hætti, það getur tekið einhvern tíma og á meðan er vissulega óvissa í mörgum málum. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur m.a., fyrst hv. þingmaður nefndi skattamál, lagt fram áætlun um það hvernig á að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á fjórum árum, snúa niður ríflega 13% halla á fjárlögum sem hlutfall af landsframleiðslu og koma því yfir núllið, þ.e. reka ríkissjóð með afgangi. Lögð hefur verið fram metnaðarfull fjögurra ára áætlun um hvernig á að standa að því. Ég tel að sú yfirlýsing og sú stefnumörkun hafi átt mikinn þátt í að leggja grunn að því að við gætum enn byggt aftur upp okkar efnahagslíf og þar með auðvitað dregið úr óvissu um hvernig rekstrarumhverfi fyrirtækja verður á næstu árum.

Jafnframt hefur náðst mikill árangur í því að endurreisa bankakerfið og raunar má segja að hið nýja bankakerfi sem við erum nú að ýta úr vör sé að mestu fullmótað. Þó að vissulega eigi það eftir að sanna sig á næstu árum, tel ég að náðst hafi mikill árangur í því að skapa nýtt fjármálakerfi sem mun þá vera bakhjarl íslensks efnahagslífs á næstu árum og leika sérstaklega veigamikið hlutverk í að greiða úr öllum þeim skuldaflækjum sem íslensk heimili og fyrirtæki búa við. Nú vitum við nokkurn veginn hvernig það getur gerst og mun ganga fyrir sig þótt vissulega eigi menn eftir að moka sig í gegnum skaflinn allan og það muni sjálfsagt taka þetta ár og eitthvað yfir á næsta ár.

Allar þessar aðgerðir draga úr óvissu en við getum ekki gert þá kröfu hvorki til þessarar ríkisstjórnar né annarrar að hún eyði allri óvissu því að að er ekki í mannlegu valdi.