138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:49]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Þetta þema, óvissa, er vissulega áhugavert, en við skulum átta okkur á því að óvissa getur virkað í báðar áttir. Við getum bæði orðið fyrir jákvæðum áföllum og neikvæðum. Með jákvæðum áföllum á ég vitaskuld við það að hlutirnir gangi betur en við gerðum ráð fyrir. Og hefur það ekki einmitt verið svo, þegar litið er á heildina kalt sem gerst hefur undanfarna 15 eða 16 mánuði eða svo? Þegar lagðar voru fram áætlanir m.a. vegna samstarfs okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og stofnanir eins og OECD og aðrir spáðu fyrir um íslenskt efnahagslíf í árslok 2008, var það undantekningarlaust afar svört spá. Vissulega hefur verið erfitt síðan en það verður líka að hafa í huga og draga fram að ástandið er betra en allar þessar spár gerðu ráð fyrir. Samdráttur landsframleiðslu er umtalsvert minni, atvinnuleysi er umtalsvert minna og svo mætti lengi telja. Óvissan getur stundum skilað jákvæðum niðurstöðum.