138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skipan skilanefnda bankanna.

[15:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra séum sammála um mikilvægi þess að konur sitji í stjórnum og ráðum, ekki bara á vegum hins opinbera, heldur líka almennt og mikilvægi þess að stofnanir á vegum ríkisins fari að jafnréttislögum. Ég held að þetta svar færi okkur heim sanninn um að það veitir svo sannarlega ekki af að við samþykkjum það frumvarp sem hér liggur fyrir í þinginu til breytinga á lögum um hlutafélög sem kveða á um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á almennum markaði.

Mig langar að bæta við spurningu til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, frú forseti, þar sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist bregðast við því að Fjármálaeftirlitið og skilanefndir hafi í meðferð valdheimilda sinna brotið gegn jafnréttislögum.