138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skipan skilanefnda bankanna.

[15:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég ekki að skera úr um það hvort þær stofnanir sem hv. þingmaður nefndi hafa brotið jafnréttislög, en sé það tilfellið mun ráðuneytið að sjálfsögðu beita sér fyrir því að þar verði gerð bragarbót á og jafnframt vitaskuld krefjast skýringa á því hvernig stóð á því að svo óheppilega tókst til.

Ég vil svo jafnframt, fyrst við erum að ræða þessi mál, vekja athygli á því að í eigendastefnu ríkisins gagnvart fjármálafyrirtækjum sem komast í eigu þess og sýslað verður með í Bankasýslunni, er skýrt kveðið á um að taka skuli á jafnréttismálum af festu og reyna að skipa þar konum og körlum til sætis í stjórnunarstöðum í jöfnum hlutföllum að því marki sem það er hægt. Það má kannski vekja athygli á því svona undir lokin að nýráðinn forstjóri Bankasýslunnar er kona, sem ég tel að hafi verið ákaflega skynsamleg ráðstöfun.