138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skipulagsmál og atvinnuuppbygging.

[15:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða og lýsa eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og eins skuldamálum heimila og langar að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra.

Hvar eru lausnir ríkisstjórnarinnar? Mér hefur sýnst á liðnum mánuðum að það hafi verið verulegur seinagangur í mörgum af þeim málum og það væri kominn tími til að tala heldur minna og framkvæma meira. Ástæða þess að ég vil eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra er sú að hún er einn af þeim ráðherrum sem hafa, alla vega að því er virðist í fjölmiðlum og okkur í þinginu, jafnvel staðið gegn áformum um framkvæmdir í skipulagsmálum þar sem orð eins og stóriðja eða virkjun virðist koma fyrir. Þar er kannski auðveldast að minnast synjunar hæstv. ráðherra fyrr í haust á skipulagi um suðvesturlínur á Reykjanesi, mál sem hafði þá legið um alllangt skeið inni í ráðuneytinu, óþarflega lengi og mun lengur en þörf var á, en nú þremur mánuðum síðar er komið samþykki ráðherra og þessi seinagangur hefur skilað því að verkið hefur stöðvast þarna sem því nemur.

Mig langaði að spyrja ráðherra, af því nú er ársafmæli ríkisstjórnarinnar og það er ár síðan sveitarstjórnir í Flóahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi samþykktu aðalskipulag sinna hreppa og þau hafa legið í ráðuneytinu allan tímann, mig langaði að spyrja ráðherrann hvar þau lægju. Ég fékk síðan þær upplýsingar rétt áðan að ráðherrann hefði hafnað aðalskipulagi þeirra á föstudaginn var með bréfi til sveitarstjórnanna.

Mig langar því að spyrja ráðherrann: Hver er stefnan í atvinnumálum, ef mál eiga að liggja inni í ráðuneytum í heilt ár áður en ráðherrar geta tekið ákvarðanir um hvort þeir segja já eða nei? Hvernig er með sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga? Er þetta góð stjórnsýsla?