138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spyr: Af hverju er þessi leið farin? Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Sú fyrri að það hefur dregist úr hömlu að afgreiða náttúruverndaráætlunina, sem hér er til umfjöllunar og var fyrst lögð fram á hinu háa Alþingi fyrir 14 mánuðum af þáverandi umhverfisráðherra. Eins og þingmenn vita átti hún að taka gildi frá og með ársbyrjun 2009 eða fyrir ári síðan. Okkur þótti vera þörf á að koma þessu máli til afgreiðslu þingsins svo að í gildi væri náttúruverndaráætlun í landinu.

Í annan stað, sem skiptir kannski meira máli í mínum huga, þá er áætlunin, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, viljayfirlýsing um tilteknar friðlýsingar sem byggja á vísindalegum og faglegum rannsóknum. Eins og allir vita verða þær hvorki staðfestar né framkvæmdar nema um það náist fullt samkomulag á milli allra hagsmunaaðila, landeigenda, sveitarstjórna og annarra. Það er því ekki þannig að þessi áætlun bindi hendur þingmanna eða þeirra sem hagsmuna eiga að gæta með þeim hætti að ekki sé hægt að hafa samráð og samvinnu um útfærslu hennar.

Að síðustu vil ég benda á að við tókum tillit til þess við afgreiðslu þessa máls að í Mýrdal er þó nokkur deila um hvannstóðið og brekkubobbana og það var að ég hygg sameiginlegt mat nefndarinnar að ekki væri ráð að hafa þá tillögu inni í áætluninni af því að það væri svo að segja engin von eins og sakir stæðu til að sú friðlýsing gæti gengið fram.

Þetta eru í mjög stuttu máli ástæður þess (Forseti hringir.) að málið var afgreitt með þessum hætti.