138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vek aftur athygli á því að þrátt fyrir þessa lögbundnu skyldu og þrátt fyrir að menn hafi verið komnir í hálfgerða tímaþröng varðandi það að koma þessari áætlun í gegnum þingið, lýsti hæstv. umhverfisráðherra engu að síður þeim vilja sínum að þetta mál fengi ítarlega og góða umfjöllun í nefndinni. Þá er rétt að spyrja hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur: Hversu margir fundir í umhverfisnefnd fóru í þetta mál á yfirstandandi þingi? Þessi orð umhverfisráðherra féllu á þessu þingi þegar málið var flutt og þá var tekið undir þau sjónarmið að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru á sumarþinginu væru ekki ásættanleg þegar málið var rifið út úr nefnd órætt með þeim rökum að það hefði verið rætt einhvern tíma áður.

Í annan stað er algjörlega ljóst í því dæmi sem ég tók um Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta að það er algjörlega sambærilegt við það mál sem við áttum við um Mýrdalinn og brekkubobbann þar, þar sem umhverfisnefnd, sem betur fer, ákvað að fella það ákvæði út úr ályktuninni. Þess vegna spyr ég hvort ekki sé rétt að þetta ákvæði verði fellt út úr áætluninni.

Hins vegar langar mig að spyrja aðeins um samráð, af því að haft var samráð á sínum tíma varðandi stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Þá var komið á fót sérstakri nefnd sem í sátu fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu og fulltrúi Umhverfisstofnunar og sú nefnd var skipuð af umhverfisráðuneytinu. Þar náðist ákveðin sátt og varð einróma niðurstaða í þeirri nefnd um hvernig afmörkunin skyldi vera á friðlandinu. Því spyr ég: Hvers vegna var vikið svo gríðarlega mikið frá þeirri sátt sem náðist í því samráðsferli, vegna þess að samráðsferlið hlýtur að vera unnið í einhverjum tilgangi? Það hlýtur að snúast um það að ná einhverri sameiginlegri lausn sem menn geta verið sáttir við. Hvers vegna var ekki farið að tillögum þeirrar nefndar sem lagði mikla vinnu í sinn undirbúning, hvers vegna var ekki farið að þeim tillögum?