138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar sem hér liggur fyrir og er lagt fram af Birgi Ármannssyni, fulltrúa okkar sjálfstæðismanna í umhverfisnefnd.

Nú er það svo, frú forseti, að á sumarþingi 2009 varð talsvert uppþot þegar náttúruverndaráætlun var afgreidd í gegnum umhverfisnefnd í hasti og án efnislegrar umfjöllunar. Viðbrögð fulltrúa minni hlutans í umhverfisnefnd eru í rauninni efnislega enn til umfjöllunar hér í dag og það er mjög sorglegt. Það er ekki boðlegt að mínu viti, frú forseti, að mál séu keyrð með þessum hætti í gegnum nefndir þingsins án efnislegrar umfjöllunar og án þess að þeir hagsmunaaðilar og aðrir aðilar sem sent hafa inn umsögn hafi aðstöðu til þess og sé boðið upp á að koma fyrir þingnefndir og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum, sérstaklega þegar um svo viðamikið og mikilvægt mál er að ræða sem þessa áætlun.

Við flutning þessarar þingsályktunartillögu á þinginu í haust gerðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins talsverðar athugasemdir og rifjuðum upp þessa sögu frá því í sumar um hvernig haldið var á málum af hálfu umhverfisnefndar. Við fengum miklar undirtektir við okkar gagnrýni og stuðning frá mörgum aðilum, þar á meðal frá hæstv. umhverfisráðherra sem sagði við þá umfjöllun, með leyfi forseta:

„Ég vil að lokum lofa þingmönnum því að ég er talsmaður þess að náttúruverndaráætlun fái ítarlega og góða vinnu í umhverfisnefnd og vænti mikils af þeirri vinnu.“

Þess vegna brá manni óneitanlega við að sjá að enn og aftur var þetta mál rifið út úr umhverfisnefnd nánast órætt og án þess að hagsmunaaðilar fengju að koma á fund nefndarinnar til að fjalla um sín sjónarmið. Ég hef verið í sambandi við fjölmarga aðila sem sendu inn greinargerð vegna þessa máls og allir lýsa þeir yfir mikilli furðu á þessum vinnubrögðum og skilja einfaldlega ekki hvers vegna Alþingi kemur svona fram við þessa aðila sem hingað til hafa átt þess kost að koma til þings, hitta þingnefndir og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Minni hlutinn telur óviðunandi að engir hagsmunaaðilar hafi fengið að koma á fund nefndarinnar. Það er ekki okkur fyrir bestu og ekki virðingu Alþingis sæmandi að við rífum hvert málið á fætur öðru út úr nefndum þingsins í ósætti, sérstaklega ekki mál af þessum toga þar sem allar aðstæður eru til þess að reyna að ná sáttum. Það er mér ekkert sérstakt gleðiefni, frú forseti, að standa hér og kvarta yfir þessum vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans en það er hins vegar óhjákvæmilegt að gera það vegna þess að þessi vinnubrögð eru ekki boðleg. Ég get ekki setið hér hjá og þagað yfir því hve mikið mér ofbjóða þessi vinnubrögð. Ég vonast til þess að hæstv. forseti Alþingis taki það verkefni að sér að reyna að leita leiða til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Ég tel mikilvægt að hæstv. forseti einbeiti sér að því verkefni og taki í taumana vegna þess að hér er um virðingu Alþingis að tefla.

Almennt eiga þær athugasemdir við í þessu máli að samráðsskortur virðist vera ríkjandi á milli aðila. Sveitarfélögin sem málið varðar hafa flest bent á þetta í umsögnum sínum, skort á samráði. Svo birtist að einhverju leyti viðleitni af hálfu þeirra sem leggja þetta hér fram að fara inn á vald sveitarfélaganna en eins og alþjóð veit eru það sveitarfélögin sem fara með skipulagsvaldið í landinu.

Ég hef hér í andsvari gert að talsverðu umtalsefni þá stöðu sem uppi er varðandi Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta í þessari þingsályktunartillögu. Þar liggja frammi umsagnir, bæði frá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði og eins frá landeigendum á Egilsstöðum. Vissulega er það rétt að Fljótsdalshérað hefur lokið vinnu við nýtt aðalskipulag sem hæstv. umhverfisráðherra undirritaði 21. desember sl. Þrátt fyrir að þetta aðalskipulag hafi verið undirritað af hálfu umhverfisráðherra eftir umræddan fund í umhverfisnefnd bárust athugasemdir frá sveitarfélaginu engu að síður, að sjálfsögðu grundvallaðar á þeirri miklu vinnu sem sveitarfélagið hafði lagt í gerð aðalskipulagsins. Sveitarfélögin í landinu hafa flest mikinn metnað til umhverfismála. Þegar sveitarfélög leggja í mikla vinnu og leita faglegra leiða til þess að leiða fram hvaða svæði innan þeirra sveitarfélagamarka ætti að friðlýsa er sjálfsagt að Alþingi og ráðherrar taki mið af þeirri vinnu. Í þessu tilviki leitaði sveitarfélagið eftir tillögum frá Helga Hallgrímssyni, náttúrufræðingi á Egilsstöðum, um svæði til friðlýsingar og þetta svæði, Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar, er ekki þar á meðal. Umsögn hefur borist frá landeigendum sem leggjast harkalega gegn þessum vinnubrögðum og skilja einfaldlega ekki hvers vegna ekki var leitað samráðs við þá. Þessi tillaga er því í algjörri andstæðu bæði við landeigendur og sveitarfélagið. Ég vil þess vegna hvetja stjórnarmeirihlutann, ef hann fellst ekki á frávísunartillöguna sem við höfum lagt fram í þessu nefndaráliti, til að taka þetta atriði út úr áætluninni.

Það eru fjölmörg atriði í þessari tillögu sem rétt væri að minnast á en ég ætla næst að ræða aðeins um tillögu um að svæði í Skaftártungum og Síðuafrétt verði friðuð sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Á þessu svæði hefur mikill aurburður valdið miklum búsifjum og spjöllum á landi. Til þess að sporna við því er ljóst að það þarf að grípa til aðgerða og fara í umfangsmiklar framkvæmdir. Sveitarfélagið þar, Skaftárhreppur, hefur verið með sérstakan vinnuhóp starfandi sem vinnur m.a. í samstarfi við Landgræðsluna að lausnum, til hvaða aðgerða þurfi að grípa til þess að sporna við þessu. Sveitarfélagið hefur lýst því í umsögn sinni að það hefur þungar áhyggjur af því að þessi þingsályktunartillaga sem við ræðum hér muni hafa áhrif á til hvaða úrræða verði hægt að grípa. Þetta hefur vissulega áhrif á stöðu þessa svæðis. Sveitarfélagið Skaftárhreppur hefur lagt í mikla faglega vinnu við að leita leiða og skoða með hvaða hætti megi vinna gegn þessum vanda varðandi aurburðinn og er jafnframt í aðalskipulagsvinnu. Sveitarfélagið hefur lýst þeim vilja sínum og óskað eftir því að þetta atriði verði fellt út úr þingsályktunartillögunni þar til sveitarfélagið hefur klárað sitt aðalskipulag og ég tel rétt að verða við þeirri beiðni.

Það vekur furðu mína að sveitarfélagið og aðrir aðilar sem hafa sent inn athugasemdir varðandi þetta hafa ekki átt þess kost að koma á fund nefndarinnar. Ég er þess fullviss að ef nefndarmenn hefðu kynnt sér betur athugasemdir sveitarfélagsins hefði þessi tillaga fallið út úr áætluninni, á sama hátt og áætlunin varðandi brekkubobbana í Mýrdalshreppi. Ég tel að hérna sé um að ræða mál sem væri fullkomlega hægt að ná samstöðu um og skapa sameiginlegan skilning á, ef menn gæfu sér tíma til þess að ræða saman og gæfu hagsmunaaðilum tækifæri á að koma til fundar og ræða þessi mál. Þetta mál liggur þungt á heimamönnum. Þetta er ekki einhver léttvæg viljayfirlýsing Alþingis. Í augum landsmanna er þingsályktunartillaga sem er samþykkt frá Alþingi plagg sem taka skal mark á og það er því ekkert léttvægt við þetta mál sem við ræðum hér, þrátt fyrir að það hafi legið í orðum sumra hv. þingmanna í dag. Ég tel fulla ástæðu til þess að umhverfisnefnd óski eftir því að þessari umræðu verði frestað og þetta rætt betur í nefndinni. Ég tel að það væri heilladrjúgast fyrir okkur öll sem störfum hér í þinginu.

Ég vil fagna þeirri breytingartillögu meiri hlutans að falla frá ákvörðunum um friðlýsingu verndarsvæðis brekkubobba í hvannastóði undir Reynisfjalli, enda mættu þær harðvítugum mótmælum heimamanna og þess vegna ekki ásættanlegt ef sú tillaga hefði komist í gegnum þingið. Málatilbúnaður varðandi Reynisfjall og hvannastóðið þar er nákvæmlega eins vaxinn og málin varðandi Skaftárhrepp annars vegar og hins vegar Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta.

Margar athugasemdir hafa komið varðandi Þjórsárver og þá fyrirhuguðu stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem birtist í þessari tillögu. Í umræðunni hér hefur verið rætt talsvert um samráð og varðandi stækkun friðlandsins í Þjórsárverum var stofnaður sérstakur samráðshópur á vegum umhverfisráðuneytisins þar sem að komu aðilar úr héraði, sveitarstjórnarmenn og jafnframt aðilar frá Umhverfisstofnun. Sá samráðshópur skilaði sameiginlegri niðurstöðu í þessu stóra, mikla, flókna og erfiða máli. Engu að síður er í þessari tillögu vikið í stórum dráttum frá þeirri sátt, svæðið er stækkað allverulega til suðurs miðað við tillögur samráðshópsins. Því spyr ég: Á hvaða rökum var það gert? Ég reyni að lesa það út úr þessari þingsályktunartillögu en ég finn ekki svörin við því. Það væri því ágætt ef einhver veit það og gæti komið hingað upp og útskýrt fyrir mér hvers vegna ekki var farið að tillögu þessarar sérnefndar eftir alla þá vinnu sem það hafði haft í för með sér. Það var haft samráð en síðan var því einfaldlega skúbbað út um gluggann og gert eitthvað allt annað án þess að það sé rökstutt á fullnægjandi hátt.

Í þingsályktunartillögunni kemur fram að verið sé að fjalla um rústamýravist og þetta sé friðað á þeim forsendum. Ég vil spyrja, ef einhver getur upplýst mig um það: Er einhver sérstök rústamýravist á þessu viðbótarsvæði frá tillögum sérnefndarinnar þar sem friðlandið er stækkað í suður? Það hefur ekki komið fram og ekkert liggur fyrir um það. Það hafa komið athugasemdir frá ýmsum aðilum sem hafa sent inn umsagnir vegna þessa máls um að svo sé ekki og ekki hafi verið sýnt fram á það. Ég tel því að til þess að við séum öll upplýst um hvað Alþingi er að samþykkja þurfi að liggja fyrir með hvaða rökum þessi breyting er gerð. Ég óska eftir því að ég verði upplýst um það í þessari umræðu.

Ég tel rétt að gera að umtalsefni vinnuna sem nú er í fullum gangi og á lokasprettinum varðandi rammaáætlun. Þar er lögð mikil vinna í að reyna að skapa vísindalegar forsendur til þess að meta hvar verði heimilt að virkja og hvaða svæði skuli vernda í framtíðinni. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir geri ég ráð fyrir að koma þurfi til vinnu við friðlýsingar m.a. og væntanlega þarf að taka upp þessa náttúruverndaráætlun sem við ræðum nú þegar og breyta henni, koma væntanlega með ný svæði, breyta mörkum o.s.frv. Fyrst við erum á þessum stað einmitt í dag og vinna við rammaáætlun er á lokasprettinum, væri þá ekki rétt að fresta einfaldlega þessu máli og fjalla um þetta af viti þegar niðurstaða rammaáætlunar liggur fyrir? Það er ekki hundrað í hættunni, ég get ekki séð það. Mín skoðun er að það beri að gera, enda eru fjölmörg önnur atriði sem er hægt að nota tímann til að fara betur yfir, m.a. að leita samráðs og að umhverfisnefnd afli sér frekari upplýsinga um grundvöll þeirra breytinga sem þessi drög að náttúruverndaráætlun fjalla um.

Varðandi Orravatnsrústir, sem jafnframt er talað um að séu sérstæðasta freðmýrasvæði landsins, skortir talsvert á rökstuðning um afmörkun svæðisins. Það væri ágætt að fá það aðeins betur fram, ef það er hægt við þessa umræðu. Auðvitað hefði verið langbest að setjast yfir það inni í nefndinni og fá útskýringar á því þar en það var ekki tími til þess miðað við málflutning þeirra stjórnarliða sem hér hafa fjallað um þetta mál.

Í nefndarálitinu er fjallað talsvert um náttúrustofur. Ég ætla að tala mjög stutt um þann kafla og geri ráð fyrir því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fari sérstaklega yfir þau atriði. Þar er vísað í umræðu einmitt við flutning þessa máls þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson átti ákveðinn orðastað við hæstv. umhverfisráðherra. Þess vegna vekur furðu að sá vilji sem birtist við þá umræðu hafi ekki ratað inn í þetta nefndarálit frá meiri hlutanum. Ég sé þó að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur lagt fram sína eigin breytingartillögu þar um og það er ágætt.

Frú forseti. Mikilvægt er að náttúruverndaráætlun fái ítarlega og vandaða umfjöllun hér á Alþingi og að umhverfismálum sé gert það hátt undir höfði að þau fái eðlilega fyrirgreiðslu í þinginu, eðlilega umfjöllun og séu ekki sett á lægri skör en önnur mál miðað við það hvernig nefndir þingsins taka á þeim. Ég tel að þetta sé það mikilvægt mál að það eigi að ræða það og fjalla ítarlega um það í nefnd. Umhverfismálin eru ekki minni háttar mál sem hægt er að skúbba í gegnum þingið án umræðu. Það á heldur ekki að vinna þannig í nefndunum að umhverfismálin séu afgangsstærð sem eigi ekki að eyða tíma í. Það er ekki mín skoðun. Ég hvet hv. þingmenn sem sitja í umhverfisnefnd að taka undir þessi sjónarmið vegna þess að það getur ekki verið að hv. þingmenn stjórnarliðsins séu stoltir af þessum vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í meðferð nefndarinnar. Ég trúi því í hjarta mínu að svo sé ekki.

Frú forseti. Vegna alls þessa — fyrir utan þessi vonbrigði sem maður varð fyrir í kjölfar þeirrar góðu umræðu og góðu fyrirætlana sem fóru á flug við umfjöllun málsins hér fyrr á þinginu eru vonbrigðin enn meiri við að umfjöllun um þetta mál hafi ratað í þennan farveg. Þess vegna er mér nauðugur einn kostur að leggja til að þessari tillögu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að taka upp samráð á nýjan leik við sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila og að leitað verði eftir hugmyndum þeirra að friðlýsingum með það fyrir augum að skapa sem mesta sátt um tillöguna. Ef ég ætti þess kost að óska eftir því að þetta mál færi aftur inn í nefnd og yrði unnið betur mundi ég gera það en samkvæmt þingsköpum eru slík úrræði ekki fyrir hendi, að því er starfsmenn þingsins leggja fyrir okkur. Þess vegna er mér nauðugur einn kostur að leggja fram þessa frávísunartillögu. Mér þykir mjög miður að þurfa að gera það en það er einfaldlega vegna þess að þessi vinnubrögð eru óásættanleg.

Vissulega væri gott ef formaður nefndarinnar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, óskaði einfaldlega eftir því við hæstv. forseta að þessari umræðu yrði frestað og málið yrði tekið aftur inn í nefndina til vandaðrar umfjöllunar, þar sem hagsmunaaðilar ættu þess kost að koma fyrir nefndina, rökstyðja sín sjónarmið og jafnframt gætu nefndarmenn í umhverfisnefnd kynnt sér betur þær forsendur sem liggja að baki t.d. stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og afmörkun svæðisins varðandi Orravatnsrústir. Ég tel að það væri til mikilla bóta fyrir Alþingi, okkur öll og virðingu þingsins að sveitarstjórnarmenn t.d. í Skaftárhreppi og á Fljótsdalshéraði fengju að koma hingað og lýsa sínum skoðunum vegna þess að þannig eigum við að starfa. Við eigum að viðhafa opin og lýðræðisleg vinnubrögð með allt uppi á borðum, vinna saman og reyna að finna sameiginlegar lausnir á þessu mikilvæga máli sem og öllum öðrum sem við tökum að okkur að flytja hér á þessu þingi.