138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:11]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi náttúruverndaráætlun sem á að gilda frá 2009–2013, friðlýsing 12 svæða og forsendur þeirra, er byggð út frá vísindalegum gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands og faglegu mati á því hvaða þættir náttúru Íslands teljast verndarþurfi. Áætlunin miðar fyrst og fremst að því að styrkja vernd ákveðinna tegunda plantna og dýra sem taldar eru í útrýmingarhættu og áframhaldandi uppbyggingu heildstæðs nets verndarsvæða á landinu.

Hæstv. forseti. Núverandi minni hluti hér á Alþingi, eða hv. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, lögðu þessa náttúruverndaráætlun fram í upphafi þannig að ég taldi að sá grunnur sem náttúruverndaráætlun byggir á — þar sem hún var lögð fram af þeirri ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að — væri þá eitthvað sem við gætum náð sátt um á hv. Alþingi. Þetta er áætlun. Við vitum öll að ekki er verið að friðlýsa þessi svæði eins og þeim er lýst hér heldur er sú vinna eftir. Friðlýsingin er með mörgum hætti. Það eru þjóðgarðar, það eru náttúruvætti, það eru friðlönd, það eru fólkvangar og það eru búsvæði. Það segir ekkert til um það hvernig þessi svæði lenda þarna inn í þessari upptalningu eða hvort og hvenær henni verður komið á. En að því er stefnt og það er mikilvægt fyrir okkur að hafa ákveðna stefnu sem stofnanir okkar eiga þá að vinna eftir, þessa friðlýsingaráætlun. Það þarf að koma vinnunni í gang og ég hefði haldið að þetta væri eitt af þeim málum sem við næðum saman um á Alþingi og þyrftum ekki að karpa um fram og til baka.