138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála hv. þm. Þuríði Backman um að þetta er eitt af þeim málum sem ég hélt að við mundum ná samstöðu um. Ég hélt, eftir þær umræður sem áttu sér stað við flutning þessa máls á þessu þingi, að þau vinnubrögð yrðu viðhöfð í nefndinni að hægt væri að ná sátt um þetta mál. Það var hins vegar ekki boðið upp á það af hálfu stjórnarmeirihlutans og ég hlýt að halda því til haga að það kom mér verulega á óvart.

Þrátt fyrir að þetta mál hafi verið rætt á fyrri þingum er ég hér bundin af minni eigin sannfæringu. Ég sat ekki á þeim þingum. Ég tel því rétt að ég spyrji þeirra spurninga sem ég tel að rétt sé að fara yfir við þessa umræðu. Þar á meðal, þar sem því var ekki svarað í fyrra andsvari hv. þingmanns, langar mig að spyrja sérstaklega varðandi þessa stækkun á friðlandinu í Þjórsárverum aftur vegna þess að þar er um að ræða breytingu frá fyrri málum, fyrri þingum. Þarna er um að ræða breytingu. Þarna er verið að stækka miklu meira til suðurs heldur en samkvæmt fyrri drögum að þingsályktunartillögu sem ekki náði fram að ganga.

Vissulega er þetta náttúruverndaráætlun en hins vegar er þetta, ef samþykkt verður á þinginu, þingsályktunartillaga sem er samþykkt á Alþingi Íslendinga og hefur þess vegna ákveðið gildi. Það er ekki hægt að draga neitt úr því gildi og þess þá heldur mikilvægt að viðhöfð séu fagleg og góð vinnubrögð og m.a. reynt að leita leiða til að upplýsa þau mál sem liggja ekki ljós fyrir. Þau eru því miður fjölmörg þar sem ekki var staðið nægilega vel að vinnu nefndarinnar. Það er einfaldlega það sem ég er að segja hér og þess vegna væri gríðarlega gott ef þessari umræðu yrði einfaldlega frestað og málið tekið aftur inn í nefndina og við mundum kannski reyna að ná þessari sátt sem ég og hv. þm. Þuríður Backman erum sammála um að beri að gera í þessum málum.