138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir vilji ekki sitja undir því að málin eru listuð upp með þeim hætti sem raun ber vitni. Hvaða vísindalegu aðferðir eða alþjóðlegar skuldbindingar leiddu til þeirrar niðurstöðu að endurskoða friðun um brekkubobbann? Getur hv. formaður umhverfisnefndar svarað mér því? Var það þá bara sett fram í tómri vitleysu? Var það bara tóm della sem olli því að þetta var í fyrstu drögunum að þingsályktunartillögu? Það kann vel að vera að það hafi verið einhver vitleysa í forsendunum sem lágu til grundvallar þessari tillögugerð, en hvað svo sem því líður — ég vænti þess að heyra skýr svör formanns nefndarinnar varðandi þennan þátt — er upplifun mjög margra sem verða fyrir því að gengið er á eignarrétt þeirra eða annað því um líkt sú að þessar tillögur séu settar fram af töluverðri vanþekkingu sums staðar. Það gildir ekki um allar þeirra, alls ekki, og þetta er ekki bara frá landeigendum, þetta er líka frá fræðimönnum sem starfa úti á vettvangi.

Sú tilvitnun sem ég var með áðan er í ágætlega virtan og að því ég best veit mjög vandaðan náttúrufræðing þar sem hann vitnaði til þess hvernig þetta var unnið. Það er því ekki verið að efna til þess að æsa upp höfuðborgina eða vondu kallana, sérfræðingana að sunnan o.s.frv., þetta er staðreynd sem liggur á borðinu og einboðið er að á henni þarf að vinna ef menn ætla að skapa sátt um þennan málaflokk.