138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gagnrýnin sem beinist að þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir er ekki beint að þeim stofnunum sem um ræðir. Ég ber fulla virðingu fyrir þeirri þekkingu sem þar er fyrir hendi. Það hefur hins vegar, bæði af þeim og öðrum, verið bent á að það skortir enn þá töluvert upp á þekkingargrunninn og að öll púsl í hann séu komin fram. Þess vegna hefur það komið inn til umræðu við þessi mál að það skorti á betri tengingar út í héruðin. Á það hefur verið bent að nýta eigi náttúrustofurnar til þess að vinna með þessum sömu stofnunum, það skorti á þær tengingar o.s.frv., og á samráð skorti sem á að leiða staðarþekkinguna fram.

Ég tók eftir því að ekki kom fram svar um brekkubobbann og ég vænti þess að hv. þingmaður komi með það í síðara andsvari, hvað leiddi til þess. Í mínum huga er þetta varðandi Egilsstaðaskóginn og klettana þess eðlis að sú tillaga sem hér liggur fyrir — annaðhvort kemur fram breytingartillaga um að draga það til baka eða málinu verður einfaldlega vísað aftur til ríkisstjórnar og nefndarinnar til annarrar yfirferðar, því að í mínum huga er það algjörlega kristaltært að ákveðin skörun er á milli þeirrar þingsályktunartillögu sem við ræðum hér og nú og þeirra gjörða sem áttu sér stað í desember á síðasta ári, sem veldur því að sú tillaga sem hér er verið að ræða, sérstaklega hvað varðar þetta svæði, þessa tvo staði, er ótæk hér inn til afgreiðslu.