138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir málefnalega og góða ræðu, gott innlegg í þessa umræðu í dag. Það má nú rifja það upp að við sátum saman í ríkisstjórninni sem afgreiddi þessa náttúruverndaráætlun fyrst, fyrir 14, 15 mánuðum eða svo. Það er ekki aðalmálið, heldur efni þeirrar breytingartillögu sem hv. þingmaður hefur lagt fram.

Um leið vil ég segja að ég tel það ekki hlutverk umhverfisnefndar, hvorki meiri hluta hennar né minni hluta, að vera milliliður í því að framfylgja vilja umhverfisráðherrans gagnrýnislaust svona almennt séð af því að auðvitað getur nefndin haft aðrar skoðanir á málum en hæstv. ráðherra eins og oft er. En í þessu tilliti tel ég að ráðherrann og nefndin eigi samleið.

Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að einhvers staðar á leiðinni úr þessum sal og yfir í nefndarstarfið hefur sú umræða sem átti sér stað við fyrri umræðu þessarar tillögu eitthvað skolast til á leiðinni. Ég kann í sjálfu sér ekki betri skýringar á því en þær að gleymst hafi einfaldlega, og það stendur upp á mig auðvitað sem formann nefndarinnar og einnig aðra nefndarmenn sem tóku þátt í þeirri umræðu að skila henni efnislega inn í nefndarstörfin. Hafandi sagt það vil ég taka undir þau orð hv. þingmanns um mikilvægi náttúrustofanna, þeirra allra. Eins og við vitum er ein slík staðsett í Kópavogi þó að hún sé ekki beinlínis í þessu neti náttúrustofa á Íslandi. Þær hafa á liðnum árum þróast í átt til ákveðinnar sérhæfingar en líka aukinnar samvinnu. Ég tel einsýnt að hægt verði að nýta kraftana betur.