138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. formanni umhverfisnefndar, hv. 7. þm. Suðvest., fyrir ákaflega jákvæðar viðtökur við málflutningi mínum og eftir atvikum málflutningi hæstv. umhverfisráðherra, svo ég haldi því nú enn og aftur til haga.

Ég hlýt að skilja orð hv. þingmanns á þann veg að hún telji að eðlilegt sé að gera þær breytingar sem verið er að leggja til á þskj. 643, með breytingartillögu þeirri sem ég flutti. Ég tel að það sé langlíklegast, eins og hv. þingmaður sagði, að það hafi ekki verið af neinni meinbægni eða ætlun manna að undanskilja þessar góðu náttúrustofur, heldur hafi það einfaldlega gerst eins og gerist við flókin mál að eitthvað verður út undan og eitthvað fellur niður. Því fagna ég þessum góðu viðtökum hv. þingmanns og lít þannig á að með þeim hafi hún verið að taka undir að rétt væri að kveða á um það í tillögugreininni sjálfri að náttúrustofurnar hefðu tiltekið hlutverk. Það er ástæða til að gera það vegna þessa að þær hafa verið dálítið utan garðs í þessum efnum og með því væri Alþingi að kunngera ákveðna stefnumótun sína um hlutverk náttúrustofanna. Ég er sannfærður um að það er ekki bara til góðs fyrir byggðirnar sem njóta starfsemi náttúrustofanna, heldur fyrst og fremst held ég að það verði til góðs fyrir það mál sem hér er verið að fjalla um.