138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni kærlega fyrir málefnalega og yfirgripsmikla ræðu og ég held að ég geti tekið undir nánast hvert einasta orð sem féll í þeirri ræðu.

Mig langar aðeins, þar sem hv. þingmaður er reyndur sveitarstjórnarmaður, að tala aðeins um þau áhrif sem þingsályktunartillaga, samþykkt á Alþingi, hefur á afstöðu sveitarstjórnarmanna og hvaða skilning sveitarstjórnarmenn sem vinna að skipulagi í sveitarfélögum sínum eigi að leggja í það að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu. Nú hefur það legið í orðum sumra hv. þingmanna í dag að þessi tillaga til þingsályktunar, verði hún samþykkt, sé eingöngu áætlun og hafi í rauninni enga þýðingu og þess vegna sé allt í lagi að hleypa hér í gegn einhverjum ákvæðum sem er ekki sátt um og sem á í rauninni ekki samleið með þeim aðalskipulögum sem sveitarfélögin hafa þó samþykkt og þeim friðunartillögum sem sveitarfélögin hafa unnið að, mörg hver undirbúið mjög vel með aðstoð og að tillögum fræðimanna. Mig langaði aðeins að fá það fram hjá hv. þingmanni.

Jafnframt fagna ég því að hv. þingmaður tekur undir nánast hvert eitt og einasta atriði í nefndaráliti minni hlutans og mig langaði aðeins að spyrja hv. þingmann út í Skaftárhrepp þar sem aðalskipulagsvinna er í gangi. Sú sveitarstjórn hefur óskað eftir því að þetta mál fari ekki hér í gegn varðandi landsvæðið í Skaftárhreppi fyrr en aðalskipulagið er klárt. Mig langar að fá aðeins betur fram hjá hv. þingmanni hverjar afleiðingarnar hann telji verða og viðbrögðin hjá heimamönnum gagnvart þessari náttúruverndaráætlun sem við erum sammála um að ætti að ríkja friður um og ætti að reyna að ná sem víðtækastri sátt um. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður, verði þetta mál samþykkt óbreytt, að það hafi á afstöðu sveitarstjórnar Skaftárhrepps gagnvart náttúruverndaráætluninni?