138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður er eins og fram kom reyndur sveitarstjórnarmaður og tók m.a. þátt í vinnu við gerð aðalskipulags, eftir því sem mér skildist, sem fór fram í Fljótsdalshéraði þar sem m.a. var tekin afstaða til þess hvaða svæði skyldi friða. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að þingmaðurinn er sammála mér um það hversu mikilvægt er að reyna að ná sátt um mál sem þetta og hversu mikilvægt er að leita samráðs við aðila sem hlut eiga að máli, þar á meðal væntanlega sveitarfélögin og aðila sem veitt hafa umsögn í þessu máli.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hún sé sammála mér að það hefði verið eðlilegra og hefði verið til þess fallið að skapa meiri frið og róa þá aðila sem hafa gert ítarlegar athugasemdir við fyrirætlanir um þessa náttúruverndaráætlun ef þeir hefðu fengið að koma á fund umhverfisnefndar til að leggja fram sitt mál, tala fyrir rökstuðningi sínum og fá þá fram viðbrögð og vilja nefndarmanna á slíkum fundi. Ég tel svo vera, ég tel að það séu eðlileg vinnubrögð að vinna þannig að gefa umsagnaraðilum sem þess hafa sérstaklega óskað kost á því að fá að koma á fund umhverfisnefndar til að fjalla um mikilvæg mál. Og þar sem hv. þingmaður er áhugamaður um að skapa sátt í þessum málaflokki langar mig að vita hvort hún sé sammála mér um þetta.

Við erum báðar, ég og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir, nýjar hér á þingi og því langar mig jafnframt að spyrja að því hvort hv. þingmaður sé sammála þeirri túlkun að það sé nóg að umhverfisnefnd á þarsíðasta þingi hafi fjallað um þetta mál. Finnst þingmanninum það fullnægjandi hvað afstöðu hennar varðar? Ég tel að svo sé ekki, ég tel að það hefði þurft að fara betur yfir þetta mál í umhverfisnefnd eins og fram hefur komið og m.a. hefur hæstv. umhverfisráðherra tekið undir það sjónarmið (Forseti hringir.) að þetta mál hefði átt að fá ítarlegri umfjöllun.