138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég flutti ræðu áðan þar sem ég varpaði fram fjölmörgum spurningum um það mál sem hér liggur fyrir. Það vakti því talsverða undrun hjá mér að sjá að flutningsmaður nefndarálits meiri hlutans hafði ekki ætlað sér að koma í lokaræðu til að svara þeim spurningum sem fram hafa komið í umræðunni og verð ég enn og aftur að lýsa yfir vonbrigðum með vinnubrögð meiri hluta umhverfisnefndar, þar sem ekki er einu sinni kjarkur til að koma upp í ræðustól og svara þeim efnislegu athugasemdum sem bornar hafa verið fram í þessari umræðu. Þessum fádæma vinnubrögðum virðist aldrei ætla að linna, ekki einu sinni við lokaumræðuna um þetta mál. Ég verð því að kalla eftir því að fá svör við einhverjum af þessum spurningum: Á hvaða forsendum var friðlandið í Þjórsárverum stækkað? Hvers vegna voru mörkin færð út þvert á vilja þeirrar samráðsnefndar sem skipuð hafði verið af hálfu umhverfisráðuneytisins? Hvers vegna voru þau færð út?

Hefði málefnaleg umfjöllun farið fram og ítarleg umfjöllun farið fram í nefndinni, þá hefðu væntanlega fulltrúar minni hlutans einfaldlega fengið svör við þessum spurningum í nefndinni. Þar sem slík umfjöllun fór ekki fram, er nauðsynlegt að fá þessi svör fram hér. Mér ber skylda til þess að kalla þau fram. Ég tel að ég hafi rétt á að fá ákveðin svör við því. Ég fagna því að þau séu hugsanlega væntanleg í kjölfarið.

Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kastaði fram þeirri spurningu hvað það er sem skapar óróa. Ég tel að það sé einmitt samráðsleysi sem skapar óróa. Ég hef orðið vör við það í aðdraganda þess að þessi þingsályktunartillaga kom í umræðuna í dag, að það er einmitt samráðsleysið sem hefur skapað óróa vegna þessa máls.

Annað sem hefur skapað þennan óróa er að sjálfsögðu sú meðferð sem málið fékk í umhverfisnefnd. Ég kalla enn og aftur eftir svari við því á hversu mörgum fundum nefndarinnar málið var rætt. Það kom ekki fram í umræðunni áðan.

Það kom fram í hversu marga mánuði málið hefði legið inni í þinginu, ég biðst forláts ef það hefur farið fram hjá mér, en ég tók ekki eftir því að formaður nefndarinnar tæki það fram.

Fleiri spurningum var varpað fram varðandi Skaftárhrepp. Hvers vegna var ekki orðið við þeirri beiðni sveitarstjórnar að bíða með að fara með þetta svæði inn í náttúruverndaráætlun þar til sveitarstjórn hefði staðfest og klárað aðalskipulag sitt? Það fer fram ítarleg vinna þar í sveit við undirbúning aðalskipulagsgerðar og heimamenn höfðu einfaldlega væntingar til þess að hlustað yrði á beiðni þeirra. Ég verð eiginlega að fá svör við því hvers vegna það var ekki gert.

Frú forseti, það liggur fyrir að hér er að koma inn í þingið niðurstaða verkefnastjórnar um rammaáætlun og ég geri ráð fyrir því að í kjölfar þeirrar vinnu þurfi að taka þessa náttúruverndaráætlun upp og vinna ákveðna kafla að nýju. Þess vegna væri í lófa lagið að fara að þeirri tillögu sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom með að taka út þau mál sem ósætti er um að fari í gegn, ósætti við þá sem veitt hafa umsagnir og sérstaklega með tilliti til afstöðu þeirra sveitarfélaga sem þar eru undir.

Þetta eru helstu spurningarnar sem enn er ósvarað í þessu máli. Ég óska einfaldlega eftir því í fullri vinsemd að fá svar við þeim.