138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skrifaði grein í Morgunblaðið í gær undir yfirskriftinni „Á fulla ferð í atvinnumálum“. Þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Skynsamleg og sjálfbær orkunýting er forsenda og drifkraftur endurreisnar samfélagsins og eflingar atvinnulífsins. Endurnýjanlegar orkulindir eru sóknarfæri okkar og sérstaða sem þjóðar til þess að fá hingað nauðsynlega erlenda fjárfestingu.“

Ég get verið hv. þingmanni hjartanlega sammála um þetta atriði.

Um mitt síðasta ár var gerður svokallaður stöðugleikasáttmáli þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun greiða götu stórframkvæmda“ og „ganga til samstarfs við lífeyrissjóði um fjármögnun stórra framkvæmda“ samanber sérstakt minnisblað um verklegar framkvæmdir. Í nýlegri ályktun frá miðstjórn ASÍ segir:

„Eftir að horfur í atvinnumálum höfðu farið batnandi sl. sumar og haust hefur atvinnuleysi aftur aukist. Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað komið á framfæri við stjórnvöld þeim áhyggjum sínum, að verulegar líkur séu á að atvinnuleysi aukist enn á næstu vikum og mánuðum. […] Í þessu ljósi eru það mikil vonbrigði og í raun grafalvarlegt að ríkisstjórnin hefur sýnt lítinn áhuga á að nýta vilja aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna til samstarfs um að ýta verklegum framkvæmdum úr vör eins og rætt var um strax sl. sumar. Aldrei hefur verið mikilvægara fyrir landsmenn að sporna gegn auknu atvinnuleysi með sókndjarfri áætlun um verklegar framkvæmdir og almenna endurreisn atvinnulífsins.“

Þá segir einnig:

„Það er ástæða til þess að tengja þessa stöðu við gerð og þróun svokallaðs stöðugleikasáttmála frá því í júní á síðasta ári. Með þessum sáttmála tókust sögulegar sættir milli flestallra aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda. […] Það má því furðu sæta hversu litla eftirfylgni og í raun lítinn áhuga þessi sáttmáli hefur fengið af hálfu“ stjórnvalda.

Í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins segir að ef dráttur verði á áformum um fjárfestingar í atvinnulífinu, virkjunum og orkufrekum iðnaði séu líkur á að það verði enn frekara atvinnuleysi hérlendis.

Ég spyr mig, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) hvort þingmaðurinn slái réttan tón í þessari baráttugrein og í ljósi nýlegs úrskurðar hæstv. umhverfisráðherra eða hvað hann eigi við með því að það sé að verða mikil endurreisn og viðsnúningur í íslensku atvinnulífi þegar allir aðilar á vinnumarkaðar eru sammála (Forseti hringir.) um að svo sé ekki.