138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við þingmenn á Alþingi Íslendinga höfum margoft óskað skýringa á því hversu langan tíma það hefur tekið hæstv. umhverfisráðherra að afgreiða aðalskipulagstillögu sveitarstjórnarinnar í Flóahreppi og breytingar á aðalskipulagi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Nú hafa borist fregnir af því að ákvörðun hafi verið tekin og þessum málum verið synjað, þá að þeim hluta sem snýr að þeim virkjunum sem áttu að koma þar inn á aðalskipulag.

Mig langar að beina nokkrum spurningum til hv. þm. Róberts Marshalls sem er varaformaður samgöngunefndar, en sveitarstjórnarmálin heyra þar undir. Telur hv. þingmaður að þarna sé með einhverjum hætti reynt að fara bakdyramegin að því að koma í veg fyrir að reistar verði virkjanir í neðri hluta Þjórsár? Telur hv. þingmaður að farið hafi verið að góðum stjórnsýsluháttum við þessa ákvörðun umhverfisráðherra? Telur hv. þingmaður það ásættanlegt fyrir þær sveitarstjórnir sem fara með skipulagsvaldið í landinu að þurfa að bíða svaralaust eftir afgreiðslu umhverfisráðherra án þess að það virðist hafa verið reynt að flýta þessu máli? Í Flóahreppi var ekki í gildi aðalskipulag þannig að þeir aðilar sem ætluðu sér að fara í framkvæmdir þar gátu ekki allan þennan tíma fengið leyfi skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins til að fara í framkvæmdir þar sem ekkert gilt aðalskipulag var í gangi. Þetta olli mikili óvissu og endaði með því að fundin var einhver bakdyraleið í umhverfisráðuneytinu til að veita einhverjar undanþágur. Ég tel þessa stjórnsýslu ekki forsvaranlega og óska eftir því að hv. þingmaður deili með okkur skoðunum sínum á þessu máli enda er þingmaðurinn þingmaður Suðurkjördæmis.