138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég skal deila skoðunum mínum á þessu máli með hv. þingmanni, það er ljúft og skylt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vanda til verka þegar stjórnsýslan tekst á við verkefni á borð við þau sem hér um ræðir. Það á ekki að vera neinum vafa undirorpið að farið hafi verið að góðum stjórnsýsluháttum, eins og hv. þingmaður orðar það.

Í þessu tilfelli er ákvörðun umhverfisráðherra grundvölluð á úrskurði samgönguráðherra. Þetta þýðir einhverja töf á þessum verkefnum en eins og fram kemur í máli forstjóra Landsvirkjunar segir hann að þessi úrskurður muni ekki hafa áhrif á þau verkefni sem áformuð séu á næstu mánuðum, enda hafi ekki staðið til að ráðast í virkjanir strax. Þá má gera ráð fyrir einhverri töf en það hefur í sjálfu sér engin áhrif á verkefnastöðu hjá Landsvirkjun þannig að fyrst og fremst skiptir máli í þessum efnum að vandað sé til verka.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að yfir þetta mál sé farið og hvet til þess að þingmenn, sérstaklega Suðurkjördæmis, setjist niður með sveitarstjórnarfólkinu. Ég mun beita mér sérstaklega fyrir því að við gerum það á þessu svæði þar sem farið verði yfir þessi mál.