138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Á sama tíma og við tölum um að orkunýtingin sé lykillinn að endurreisn og viðreisn í samfélagi okkar vil ég ítreka þær áhyggjur aðila vinnumarkaðarins sem hafa komið fram um atvinnustefnu þessarar ríkisstjórnar, þau brot sem ríkisstjórnin hefur framið á stöðugleikasáttmálanum og alveg ótrúlegar yfirlýsingar frá ASÍ um að ríkisstjórnin hafi hreinlega ekki viljað samstarf við lífeyrissjóðina og aðila vinnumarkaðarins til að koma hlutunum áfram. Hún var áhugaverð, yfirlýsing hæstv. iðnaðarráðherra í síðasta mánuði þegar hún staðfesti, þvert ofan í það sem hún talaði um á þingi fyrir jól, að flótti væri brostinn í þau fyrirtæki og þá erlendu aðila sem iðnaðarráðuneytið átti í viðræðum við. Hún reyndi í þeim þætti að hengja það á Icesave-málið en allir sem hugsa um þessi mál og skoða þau vita að þetta á ekkert skylt við Icesave-málið. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.)

Hún talaði fyrir jól um að í iðnaðarráðuneytinu lægi fjöldi tækifæra á borðinu og það væri mjög stutt í að við sæjum mikinn viðsnúning í íslensku atvinnulífi. Nú staðfestir hún hins vegar að flótti er brostinn í þessi fyrirtæki og það er ekkert skrýtið. Ástæðan fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins tala með þeim hætti sem þeir gera er nákvæmlega sú, og er tiltekin í umsögnum þeirra, að það er óvissa um framtíðina, það eru háir vextir, það eru gjaldeyrishöft og skattahækkanir. Það er ekki nema von að þetta fari í taugarnar á hæstv. iðnaðarráðherra sem bölvar hér í dyrunum. Það er ekki nema von að þetta komi við kaunin á henni (Gripið fram í.) vegna þess að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar eru allar í sömu átt, að drepa allt í dróma í atvinnulífinu. Það þýðir ekkert fyrir þessa ríkisstjórn að reyna að tala í aðra átt eða fyrir hv. formann þingflokks Samfylkingarinnar að skrifa eins og hann skrifaði í Morgunblaðið í gær þegar helmingurinn af ríkisstjórninni vinnur bókstaflega gegn þessu og yfirlýsing og ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra núna varðandi neðri Þjórsá sýnir svo ekki verður um villst (Forseti hringir.) að skilaboðin til erlendra aðila sem hér vilja fjárfesta eru þau sömu: Komið ekki nálægt Íslandi.