138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við í minni hluta umhverfisnefndar leggjum til að málinu verði vísað frá af þeirri ástæðu að við teljum að menn þurfi að ræða betur saman varðandi náttúruverndaráætlun. Það liggur fyrir í gögnum málsins að það er m.a. verið að vinna að gerð rammaáætlunar um nýtingu jarðvarma og vatnsafls. Að minnsta kosti eitt verkefni gengur þvert á þá vinnu. Jafnframt liggur fyrir að það upplýsinga- og samráðsferli sem áskilið er að verði viðhaft við þá vinnu sem hér liggur til grundvallar hefur ekki verið virt og við höfum fengið fjöldann allan af athugasemdum sem mæla gegn því verklagi sem hér er viðhaft.

Enn fremur liggur fyrir í gögnum málsins að tillaga sem hér liggur inni í viljayfirlýsingu meiri hluta umhverfisnefndar, sem frágengin var í nefndinni og tekin út 9. desember, gengur þvert á staðfestingu umhverfisráðherra sem gerð var 21. desember á aðalskipulagi Fljótsdalshrepps sem tekur ekki tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið og tillögu um friðlýsingu ákveðinna svæða á Fljótsdalshéraði þannig að þegar er komin fram innbyggð þversögn í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ég legg til að henni verði vísað frá og mun að óbreyttu greiða atkvæði gegn áætluninni.