138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð þessa frávísunartillögu. Mér þykir mjög leitt að þurfa að halda uppi gagnrýni í þessu máli af öllum málum vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að við séum með góða og vel unna náttúruverndaráætlun í gildi þar sem hlustað er á hagsmunaaðila, þar sem farið er yfir umsagnir, þar sem farið er að vilja m.a.s. hæstv. umhverfisráðherra að fjallað sé ítarlega um þetta mál í umhverfisnefnd. Það var ekki gert. Mér ofbjóða þessi vinnubrögð og mér ofbýður þegar hv. þingmenn stjórnarliða hafa komið í pontu og gert lítið úr þessum athugasemdum og gera þar með lítið úr því að umhverfismál eigi að fá stóran sess í þinginu, að umhverfismál séu stór og merkilegur málaflokkur sem eigi að fá ítarlega og góða umfjöllun í þinginu. Ég skil einfaldlega ekki hvaða hugarfar er að baki þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarflokkanna að þurfa endilega líka að taka náttúruverndaráætlun út úr nefnd í ósátt. Ég skil einfaldlega ekki þessi vinnubrögð. Ég tel að forseti ætti að fara ofan í þetta mál.