138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nei, ég sit ekki í umhverfisnefnd, hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, en ég sat í henni þegar málið var lagt fram í upphafi. Þá var alveg sama gagnrýnin á þetta mál og er í dag. Þetta mál er vanreifað og ef það er eitthvert lykilatriði að leggja fram náttúruverndaráætlun sem á að gilda á árunum 2009–2013 skulum við bara breyta því í 2010–2014, en við skulum vanda til vinnubragða. Þetta er alveg ótrúlegt, hér erum við með mikilvægt mál í höndunum, náttúra Íslands er mikilvægt mál, hvernig við ætlum að hlúa að henni í framtíðinni og hvernig við ætlum að nýta hana. Það liggur ekkert á að keyra þetta í gegn. Aðalatriðið er að málið fái ítarlega umræðu. Margir hagsmunaaðilar hafa gagnrýnt þetta sérstaklega. Þegar málið var lagt fram í haust lofaði hæstv. ráðherra því (Forseti hringir.) að nú fengi þetta málefnalega umfjöllun og því yrði gefinn góður tími. (Forseti hringir.) Það hefur ítrekað komið fram að nefndin hefur nánast ekkert fjallað um þetta mál og hagsmunaaðilar hafa ekki verið kallaðir á fund nefndarinnar.