138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast við þessa skýringu hv. þingmanns en hún heldur ekki vatni vegna þess að ef það hefði verið raunverulegur vilji til þess af hálfu stjórnarliðsins að koma þessum fjármunum til vinnu í þágu byggðamála, í þágu sjávarbyggðanna eins og kveðið er á um í athugasemdum við frumvarpið, hefði verið hægur vandi að setja þessa fjármuni til Byggðastofnunar sem hefur m.a. það lögformlega hlutverk að annast um framkvæmd byggðaáætlunarinnar. Það er hins vegar ekki gert.

Hér er um að ræða stefnumarkandi ákvörðun um að færa fjármuni sem upphaflega voru ætlaðir til sjávarbyggðanna til annarra nota og við sem höfum skoðað t.d. styrkina sem hafa runnið frá þessum sjóði, Átaki til atvinnusköpunar , vitum að þeir hafa ekki runnið sérstaklega til sjávarbyggðanna. Þeir hafa ekki síður runnið til annarra byggðarlaga, svo sem eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki að gera lítið úr þörfinni hér, ég er eingöngu að undirstrika að í þessari sakleysislegu breytingartillögu felst byggðapólitísk stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar með öfugum formerkjum þar sem í raun og veru er tekin ákvörðun um að falla frá því að veita umtalsverða fjármuni sérstaklega til sjávarbyggðanna þaðan sem þessir peningar eru í rauninni upprunnir. Sjávarbyggðirnar munu borga fyrir þau uppboð sem eiga að fara fram á skötuselnum. Það er rangt að taka þessa peninga sem útgerðirnar, sjómennirnir og aðrir þeir sem koma að þessum málum reiða fram til að geta aflað sér veiðiréttar og úthlutað þessum peningum inn í sjóð sem ekki er ætlað sérstaklega að styrkja sjávarbyggðirnar og stuðla þar að atvinnuþróun og nýsköpun eins og frumvarpið sagði til um.

Mér sýnist sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi verið ofurliði borinn. Önnur pólitísk öfl hafa greinilega tekið völdin. Þetta er ekki stórmál en hins vegar lýsandi fyrir ákveðna afstöðu. Þetta er byggðapólitísk stefnumörkun með öfugum formerkjum.