138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er eiginlega skapi næst að svara ekki (Gripið fram í.) hv. þm. Árna Johnsen, svo ókurteis sem hann er í ræðustóli. Í sjálfu sér er fáránlegt að persónugera heilt nefndarálit í einni manneskju sem mælir fyrir því. Ég skildi ekki fyrstu athugasemd þingmannsins um að ég hefði sagt að takmörkun á veiðiskyldu yki aflamark. Ég kannast ekki við að hafa sagt það en þingmaðurinn getur þá leiðrétt mig á eftir.

Um þetta „bull“ sem þingmaðurinn kallar svo um að skötuselur sé ný og ágeng fisktegund á Íslandsmiðum bendi ég á að hér liggur fyrir skýrsla frá Hafrannsóknastofnun sem sýnir mætavel hver útbreiðsla skötusels hefur verið á Íslandsmiðum síðustu ár. Hér eru ágætar myndir sem ég skal sýna þingmanninum í rólegheitum sem sýna hvernig þessi fisktegund hefur þróast frá því að vera lítið eða ekkert sjáanleg fyrir sárafáum árum yfir í það að vera orðin allalgeng fyrir öllu sunnan- og vestanverðu landinu og eiginlega á öllum miðum nema úti fyrir Norðurlandi.

Varðandi umræðu um fyrningarleiðina og ummæli mín af allt öðru tilefni gagnvart þeirri makalausu hótun útvegsmanna að sigla flotanum í land ef fyrningarleiðin verði farin trúi ég því í fyrsta lagi ekki að menn ætli að láta verða af slíkri hótun enda eru hótanir ekki vel til þess fallnar að halda uppi vitrænni umræðu. Þeir sem hafa í hótunum að fyrra bragði fyrirgera rétti sínum til friðsamlegra samskipta. Þannig er það, því miður. En stjórnvöld hafa alla tíð sýnt útvegsmönnum mikla þolinmæði, sáttahug og samningsvilja sem útvegsmönnum væri nær að virða og ganga til samstarfs (Forseti hringir.) við stjórnvöld í því verkefni sem fram undan er, að breyta íslensku fiskveiðistjórnarkerfi.