138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég gerði út af fyrir sig ekki athugasemd við það þótt hæstv. ráðherra legði fram frumvarp þar sem tekið væri á einstökum málum. Ég hef mætagóðan skilning á því að hæstv. ráðherra þarf að gera það, og ekkert að því. Ég hafði bara gert ráð fyrir því að hæstv. ráðherra flytti ýmis frumvörp í þá veruna. Það kæmi svo á daginn hvort mér litist eitthvað á frumvörpin eður ei, það er önnur saga.

Það er út af fyrir sig rétt sem hv. þingmaður sagði, hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því að þannig mundi það vera og ég hygg að það hafi ekki komið neinum á óvart. Þá þurfa menn að átta sig á því hvaða mál það geta verið sem undir þetta geta flokkast. Ekki bara LÍÚ, heldur líka öll sjómannasamtökin, hver einustu, og Alþýðusamband Íslands, heildarsamtök launafólks á almennum markaði, hafa metið þetta frumvarp þannig að það sé til þess fallið að rjúfa þessi grið og trufla þessa vinnu, með öðrum orðum sé ekki hægt að fella þetta frumvarp undir það að verið sé að taka á einstökum málum með þeim hætti að trufli ekki starf nefndarinnar.

Ég tel þess vegna að það ætti að vera einboðið fyrir stjórnarmeirihlutann að taka tillit til þessa þegar það er mat bæði launafólks, sjómanna og útvegsmanna að það væri heppilegra fyrir framgang málsins. Þá væri skynsamlegast af hálfu hæstv. ráðherra og stjórnarliðsins að kalla þetta mál aftur og reyna að leggja fram mál sem ekki væru til þess fallin að trufla þetta mikilvæga starf.

Ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, ég tel að allir eigi að koma að þessu borði. Ég vona svo sannarlega að útvegsmenn verði í þeim hópi. Ég tel að það væri mjög gott og nauðsynlegt fyrir starf nefndarinnar að útvegsmenn kæmu að þessu borði. Ég hef a.m.k. haft fullan vilja, og hef fullan vilja til þess (Forseti hringir.) að vinna af fullum heilindum í þessu máli að því að ná niðurstöðu þótt ég geri mér grein fyrir því að niðurstaðan verði ekki endilega að öllu leyti mér að skapi.