138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst langar mig til að víkja að þeirri fullyrðingu hv. þingmanns að það hafi verið undirliggjandi og legið fyrir þegar viðræðunefnd sú sem sjávarútvegsráðherra skipaði með hagsmunaaðilum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna um fiskveiðistjórnarkerfið var sett af stað, að ekki yrðu gerðar stórfelldar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á meðan nefndin væri að störfum. Þetta held ég að sjávarútvegsráðherra og stjórnarmeirihlutinn hafi staðið við. Þær breytingar sem eru til umræðu í þessu frumvarpi eru tímabundnar og skammvinnar, lagfæringar á þáttum sem eru til staðar nú þegar í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Eina raunverulega breytingin sem um er að ræða er sú hvernig fara skuli með viðbótarveiðiheimildir á skötusel og þær breytingar sem þar eru lagðar til eru svo sannarlega hófsamar og varkárar og alls ekki til þess fallnar að marka nein örlagatímamót í íslenskri fiskveiðistjórn, en hins vegar gæti verið mjög fróðlegt að sjá hvort tilraunin gengur upp.

Þingmaðurinn spyr hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að rífa mál órædd út úr nefndum. Það er það að sjálfsögðu ekki, svo sannarlega ekki, enda fékk þetta mál sína umfjöllun og umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, en þar sem ljóst var að sú umræða mundi ekki leiða neitt vegna grundvallarágreinings var málinu vísað til 2. umr. og er hér til umræðu og engar hömlur eru á þeirri umræðu. Þannig er nú það.