138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar getur rökstutt hvernig málið fór í gegnum nefnd og ég fagna því að það sé hægt í þessu tilfelli, vegna þess að það var ekki hægt í umræðunni í dag um náttúruverndaráætlunina.

Varðandi þá minni háttar breytingu sem felst í bráðabirgðaákvæðinu um skötusel er ekki um neinar minni háttar breytingar að ræða. Hér sjáum við í fyrsta skipti vísbendingu um það hvernig fyrningarleiðin verður útfærð. Ég tel að full ástæða sé til að vekja athygli á því og ræða málið út í hörgul, sérstaklega í ljósi þeirra miklu deilna og athugasemda og fjölmörgu ályktana sem hafa heyrst frá bæjarfélögum, frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, hringinn í kringum landið. Ég er þess fullviss að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sé sammála mér um það. Mér finnst talsvert lítið gert úr þessari breytingu af hálfu hv. þingmanns. Ég er einfaldlega ekki sammála því og tel, herra forseti, að þótt við, ég og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, töluðum í allan dag og töluðum okkur bláar í framan yrðum við aldrei sammála í þessu máli.