138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir séum sammála um að það sé þarft verkefni og mikilvægt að hlúa að og styrkja íslenskan sjávarútveg svo hann geti starfað við eðlileg og góð rekstrarskilyrði. Þingmaðurinn nefndi sérstaklega Deloitte-skýrsluna margumtöluðu, þar sem ætla má af efnistökum að það kalli hrun yfir sjávarútveginn ef fyrningarleið er farin. Ég hef borið þessa skýrslu undir hagfræðinga og þeir eru sammála um það að í skýrslunni séu ekki eðlilegar forsendur til að komast að þeim niðurstöðum sem gefnar eru. Það er eins og gengið sé út frá því að með fyrningarleiðinni verði til nýr kostnaðarliður sem muni hvorki hafa áhrif til hækkunar né lækkunar á aðra kostnaðarliði. En fyrir þessari aðferðafræði skýrsluhöfunda eru ekki færð nein rök, þannig að ekki verður annað séð en að höfundum skýrslunnar séu ekki kunn þau áhrif sem inngrip á borð við t.d. nýja skattlagningu eða aðrar umgjarðarbreytingar hefðu á markaðsverð framleiðsluþátta og aðfanga.

Þetta er ákveðinn grundvöllur sem þarf að liggja fyrir áður en menn draga frekari ályktanir. Þannig að í raun og veru eru engin haldbær hagfræðileg rök fyrir þeirri fullyrðingu sem höfð hefur verið á orði í krafti skýrslunnar, að fyrningarleiðin muni leiða til einhvers hruns í íslenskum sjávarútvegi. Þessi skýrsla gefur ekki á nokkurn hátt mynd af áhrifum hinnar svokölluðu fyrningarleiðar á íslenskan sjávarútveg. Fyrningarleiðarinnar, sem ég vil nú miklu frekar kalla áætlun um innköllun (Forseti hringir.) og endurúthlutun, en það er annað mál.