138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur margoft komið fram í þessari umræðu, m.a. í ræðu minni áðan, að það sé mjög eðlilegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra leggi fram tiltekin mál á málefnasviði sínu, hvort sem það er í sjávarútvegs- eða landbúnaðarmálum. En við skulum ekki gleyma því að ríkisstjórnin ákvað tiltekið verklag í þessum efnum. Inn í stjórnarsáttmálann var sett tiltekið ákvæði um það að setja ætti á laggirnar nefnd sem í ættu sæti fulltrúar hagsmunaaðila og ólíkra pólitískra sjónarmiða og það var sjálfur hæstv. ráðherra sem lagði áherslu á að þessi nefnd fengi vinnufrið. Nú má alltaf deila um hvers eðlis mál eru, hvort þau eru stór eða lítil, en hitt er algjörlega óumdeilanlegt að öll samtök sjómanna, Alþýðusamband Íslands, útvegsmenn og fleiri hafa bent á að það frumvarp sem við ræðum hér sé af þeirri gerð að það rjúfi þennan frið, það sé til þess fallið að trufla starf nefndarinnar sem ríkisstjórnin sjálf lagði upp með og skrifaði inn í stjórnarsáttmála sinn. Það er því alveg ljóst að það er ríkisstjórnin sem er að rjúfa griðin eins og ég sagði áðan.

Það er rétt að allt of lengi hefur ríkt ófriður um fiskveiðimálin og mjög mikilvægt er að reyna að setja þann ófrið niður og skapa meiri sátt um málið. Það hefur oft verið reynt og það er verkefni nefndarinnar sem við erum að tala um. En er það líklegt til að auka friðinn í sjávarútveginum að hefja stríð við sjálfa atvinnugreinina eins og verið er að gera með þessu frumvarpi og með þeim áformum sem uppi hafa verið varðandi fyrningarleiðina? Auðvitað er það engin frjálshyggja þegar því er haldið fram að hafa eigi þau eðlilegu vinnubrögð að menn í atvinnugreininni sjálfri ráði því í hvaða pakkningar þeir velja fiskinn sem verið er að vinna hverju sinni. Það á ekki að vera á ríkisstjórnarborði eða Stjórnarráðsborði að taka þær ákvarðanir. Ég er undrandi á því að svo frjálslyndur (Forseti hringir.) maður sem hv. þm. Helgi Hjörvar er skuli tala með þessum hætti og ber þess merki að eins árs sambúð við Vinstri græna sé búin að gera hann að forræðishyggjumanni.