138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Illt er ef satt er, hv. þingmaður. En nokkur atriði um þetta. Í fyrsta lagi, hv. þingmaður, hljótum við alþingismenn sjálfir að þurfa að meta hvaða efnisatriði eru með þeim hætti að þau séu tæk til afgreiðslu þingsins og lúti að þeim brýnu aðgerðum sem hæstv. ráðherra þarf að grípa til og hver varða framtíð sjávarútvegsins og framtíðarskipan með þeim hætti að óhjákvæmilegt sé að hafa undir í langtímastefnumótun.

Ég heyri á hv. þingmanni að hann reynir ekki einu sinni að halda sjálfur við þau rök eða styðja sjálfur við það sjónarmið að hér sé á ferðinni eitthvert það stórmál að það setji langtímastefnumótun í sjávarútvegi í uppnám, enda veit hann sem er að það er ekki hægt að færa nein efnisrök fyrir því. Hann vísar hins vegar til þess að það sé sjónarmið ýmissa ágætra aðila utan þingsins, hann vísar til sjómannasamtaka, atvinnurekendasamtaka og Alþýðusambands Íslands, allt saman samtök sem eru góðra gjalda verð. En það er okkar hér að meta það og vega hvernig þessum málum er háttað. Ég hygg að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um það að hér eru ekki á ferðinni neinar þær grundvallarbreytingar sem óhjákvæmilegt sé að séu undir í langtímastefnumörkun í sjávarútvegi.

Hvað varðar friðinn, þá er það eins og ég sagði áðan að um þessa skipan í sjávarútvegi hefur ekki verið neinn friður frá því að henni var komið á. Það er vandinn en ekki þetta litla mál sem hér er, heldur sá viðvarandi ófriður og ósætti sem verið hefur um skipanina í aldarfjórðung og er orðið algerlega óhjákvæmilegt að taka á. Því mun þessi ríkisstjórn taka á (Forseti hringir.) einmitt til að eyða þeirri óvissu sem verið hefur í 25 ár.