138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lítið skref, sagði hv. þingmaður og kannski réttilega. Fordæmi, sagði hv. þingmaður líka. Og um hvað er hv. þingmaður þá að tala? Hann er að tala um það fordæmi að verði aflaheimildir auknar nýtist tekjur af því eða nokkur arður af þeim veiðum til að standa fyrir gríðarlega brýnum verkefnum í íslensku samfélagi, auknu virði sjávarafurða og fyrir átaki í atvinnusköpun, í stað þess að það renni til þeirra sem eiga aflaheimildirnar. Ég verð að segja að það er sannarlega lítið skref, af því að hér er ekki um miklar aflaheimildir að ræða og aðeins eina tegund, en það er sannarlega gott skref og sannarlega gott og verðugt fordæmi. Eitthvert mikilvægasta verkefnið í þessu er auðvitað að skapa sátt um arðinn og hvert hann rennur af þessari starfsemi og með hvaða hætti. Ég á æ erfiðara með að skilja þingmenn sem, eins og ég sagði áðan, stíga upp í upphafi þingfunda og tala eindregið fyrir því að hér þurfi og verði að ráðast í frekari aðgerðir í atvinnumálum en stíga svo upp um kaffihléið og leggjast eindregið gegn því að arður sé með þessum hætti látinn renna til átaks í atvinnusköpun í landinu.