138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, svokallað skötuselsfrumvarp eins og það hefur oft verið kallað hér. Áður en ég fer að ræða efnislega um frumvarpið vil ég segja að eftir ummæli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur áðan þar sem hún sagði að stjórnarflokkarnir hefðu fengið umboð til að fara í ákveðnar breytingar á stjórn fiskveiða og út af þeim fengið kosningu langar mig að árétta það að stjórnarflokkarnir fengu líka kosningu út á það að slá skjaldborg um heimilin. Ég hefði frekar viljað standa núna í þessum sporum og ræða vandamál heimilanna í landinu því að mikil vá er þar fyrir dyrum, fólk er búið að missa vinnuna sína, fólk er að tapa eignum sínum og fjölskyldur að flosna upp. Forgangsröðunin í að efna þessi kosningaloforð er að mínu viti kolröng. En nóg um það.

Virðulegi forseti. Okkur hættir oft til þess þegar við förum að ræða sjávarútvegsmálin að ræða þau dálítið yfirborðskennt og ekki nógu mikið út frá öllum hliðum málanna. Ég ætla hins vegar að reyna að nálgast þessa umræðu núna út frá bæði því jákvæða og neikvæða sem ég sé í þessum breytingum hér.

Í fyrsta lagi tel ég ekki þörf á þessu frumvarpi núna við þessi skilyrði og hefði frekar talið að menn hefðu átt að útfæra hugsanlega í sáttanefndinni þær hugmyndir sem koma fram í frumvarpinu. Ég geri hins vegar ekki athugasemdir við það og ætlast ekki til þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra geti ekki lagt fram neinar breytingartillögur á stjórn fiskveiða. Spurningin er hins vegar sú hvort mönnum finnist viðbrögðin of hörð eða of lin. Menn hafa ugglaust skiptar skoðanir um það en eigi að síður hefur framlagning á þessu frumvarpi sett þessa vinnu í loft upp.

Ef við ræðum þá efnislegu þætti sem hér koma fram er í fyrsta lagi verið að ræða um að breyta framsali á milli ára, þ.e. að minnka framsalið úr því sem það er í núna, 33%, niður í 15%. Hins vegar er heimildarákvæði í lögunum um að á yfirstandandi fiskveiðiári, þ.e. 2009–2010, verði geymslurétturinn svokallaði einungis 10%. Hugsunina að baki þessu ætla ég hv. stjórnarþingmönnum þá að reyna að færa veiðina á þessum tegundum á þessu kvótaári sannarlega inn í það ástand sem er núna.

Ég ætla að benda á að það er líka ákvæði í lögunum um að menn megi veiða 5% umfram af næsta ári á því ári sem er að líða núna, þ.e. núverandi fiskveiðiári. Þegar sú breyting var gerð að mega færa það sem má færa á milli ára úr 20% í 33% var það gert eftir að menn höfðu bætt við þorskkvótann seint á árinu. Við verðum að átta okkur á því að hugsunin á bak við þetta er líka, og það hefur komið fram í ræðum í dag, hinn svokallaði markaðslegi þáttur, þ.e. fyrirtæki sem eru að gera samninga um sölu á fiski geta gert það með þeim hætti að þau hafa ákveðnar veiðiheimildir og geta tryggt ákveðna afhendingu. Hugsunin er fyrst og fremst sú. Eigi að síður eru ekki bara kostir við þetta enda sýnir reynslan okkur að breyting á þessum lögum, um hvað má geyma milli ára, þ.e. minnka það úr 33% niður í 15%, storkar í raun og veru ekki því sem við erum að gera í dag. Reynslan er sú að við erum ekkert að flytja þetta aflamark í þessu magni milli ára. Það er verið að færa aflamarkið í flestöllum tilfellum innan þessarar tölu. Ég sé ekki fyrir mér að það muni á neinn hátt kollvarpa sjávarútveginum.

Mér hefur lengi fundist þessi heimild allt of rúm og hef sagt það margoft, bæði eftir að ég kom á Alþingi og áður. Það er allt í lagi að minnka hana. Það skiptir ekki höfuðmáli hvort mér finnist hún eiga að vera 20% eða 15% eða 10%, niðurstaðan er að þessi breyting ruggar ekki neinu núna við þessar aðstæður. Staðreyndin er að það er sveigjanleiki í kerfinu en við megum hins vegar ekki gleyma hugsuninni á bak við það. Hugsunin er ekki sú að menn geymi veiðiheimildir til að geta hækkað verðið og þar fram eftir götunum. Hugsunin er markaðslegar forsendur. Þá verðum við líka að gera okkur grein fyrir því að það muni hugsanlega hafa neikvæð áhrif í þann enda. Við skulum bara ræða það út frá því sjónarhorni sem eru klárlega staðreyndir í málinu. Breytingin ein og sér ruglar engu kerfi. Það hefði ekki þurft að setja neina vinnu í loft upp hvað það varðar, það er alveg klárt í mínum huga.

Síðan vil ég koma næst inn á svokallaða línuívilnun þar sem breytingarnar eru gerðar. Nú er línuívilnunin hækkuð úr 16% í 20% sem þýðir í stuttu máli að þeir sem landa ákveðnu aflamagni í þorski og ýsu fá þetta frádrag frá aflanum. Það er staðreynd og þess vegna sagði ég áðan að við færum oft ekki nógu djúpt inn í umræðuna. Þegar þetta var sett fyrir mörgum árum var ég einn af þeim sem töluðu fyrir því að þetta yrði gert þó að ég starfaði ekki þá við línuveiðar sem ég geri í dag. Ég taldi þetta skynsamlegt út frá því sjónarmiði sem margoft hefur verið bent á, að þetta væri atvinnuskapandi og gæfi líka ákveðið svigrúm fyrir þá sem vildu koma nýir inn í greinina, þeir gætu keypt sér lítið af veiðiheimildum, leigt til sín gagnvart framsalinu og fengið þessa línuívilnun. Þetta væri í raun og veru skref í þá átt að létta nýliðum að koma inn í greinina. Enginn kemur nýr inn í greinina og kaupir sér frystitogara. Þarna hefur leiðin inn í greinina verið fyrir þá sem hefja þessa útgerð. Nýliðun er oft og tíðum rædd út frá mjög sérkennilegu sjónarhorni vegna þess að auðvitað er fullt af nýliðun í greininni, áhafnirnar koma og fara, ungir menn koma og gamlir hætta. Við erum alltaf föst í að tala um nýliðun bara hjá þeim sem stýra og hafa umráðarétt yfir veiðiréttinum. Auðvitað er fullt af nýliðun í greininni.

Þess vegna talaði ég fyrir þessu þegar það kom upp á sínum tíma, en þá verðum við líka að taka það til greina að þeir sem gera út á línu í dag fá 16% í línuívilnun. Síðan er slægingarstuðullinn fastur við 16%. Það vita allir, eða a.m.k. mjög margir og ég hef náttúrlega vitað það lengi, að slægingarstuðullinn gagnvart línufiski er rangur. Inni í línufiski er kannski á bilinu 7–11%. Í raun og veru má segja að við þær aðstæður sem við erum í núna er línuívilnun 24%. Þegar menn kaupa fiskinn á markaðnum, línufisk, vita þeir að þeir kaupa hann óslægðan og að slægingarstuðullinn er vitlaus. Þeir sem gera út á línu fá þar af leiðandi hærra verð, það gefur augaleið að það er með þeim hætti að menn fá klárlega ein 24% í ívilnun í dag. Til viðbótar er verið að hækka hana upp í kannski 28%. Menn verða líka að horfa á þetta út frá þessum hliðum.

Eitt sem ég benti á þegar menn töluðu um þetta hér fyrst snýr að öryggismálum sjómanna. Nú verða menn að njóta línuívilnunar með því að landa í sömu höfn og þeir róa frá. Því miður hefur reynslan sýnt okkur að það hefur kostað okkur fórnir. Það sjá allir að menn reyna í öllum tilfellum að komast til baka í sömu höfn. Þess vegna benti ég á hvort ekki væri skynsamlegra að breyta því ákvæði af því að þeir verða að landa innan sólarhringsins og gera ekki kröfur um að þurfa að landa í sömu höfn. Þetta fjallar um öryggismál sjómanna. Það hefði verið skynsamlegra að taka það inn í þessa umræðu.

Síðan komum við að svokallaðri vinnsluskyldu á uppsjávarveiðum. Ekki er ég mikill forræðishyggjumaður fyrir aðra en hins vegar verður ekki fram hjá því litið að á síðasta ári var miklum verðmætum sóað. Við erum búin að henda frá okkur mörgum milljörðum. Það er engin skynsemi í því. Það segir okkur að núna eru aðstæðurnar þannig að uppsjávarskipin sem veiða makrílinn og moka honum í bræðslu hugsa oft og tíðum allt of mikið um að búa sér til svokallaða veiðireynslu til að geta farið síðan fram á að þau fái úthlutað miðað við hana. Og þá er hugsunin ekki sú að skapa nógu mikil verðmæti, heldur það að vera með veiðireynsluna og síðan þegar þeir eru búnir að fá úthlutað munu þeir fara að sýna ábyrgar veiðar eins og er gert í aflamarkskerfinu, að gera sem mesta verðmætið úr auðlindinni. Ég hef ekki gert og mun ekki gera athugasemdir við það heimildarákvæði til ráðherra að bregðast við þessu vegna þess að þarna á sér stað sóun og hana verðum við að stoppa. Það er bara þannig. Því miður. Og við getum ekki haldið svona áfram.

Það eru mörg önnur skip sem gætu hugsanlega farið að veiða inn í uppsjávarveiðina og búið til miklu meiri verðmæti. Á meðan menn eru ekki búnir að úthluta eftir þessari veiðireynslu eiga menn að gera kröfur til þeirra um að ganga með ábyrgum hætti um auðlindina. Það er alveg klárt í mínum huga. Þess vegna er þetta að mínu viti skynsamlegt. Þetta er einn þeirra hluta sem menn hefðu getað tekið inn í strax gagnvart þessu frekar en að fara, sem ég kem að seinna, gagnvart því sem mér finnst mjög neikvætt í þessu frumvarpi.

Þá ætla ég að koma næst að þeim þætti í þessu frumvarpi sem snýr að breytingu á úthlutun á karfa, þ.e. djúpkarfa og gullkarfa. Eins og þetta er í dag er úthlutað 50.000 tonnum af karfa, svo landa bara allir inn í þennan pott og fá, alveg sama hvort það er djúpkarfi eða gullkarfi. Núna á að gera breytingu sem menn hafa talað um í mörg ár, að skilgreina 35.000 tonn sem djúpkarfa, 15.000 tonn sem gullkarfa. Þetta þýðir eins og þetta er að fullt af skipum í dag og sérstaklega litlum togskipum munu fá um 30% af aflanum sínum úthlutað í djúpkarfa. Það er dálítið á skjön við það sem margir hv. stjórnarþingmenn hafa sagt í ræðustól, hér er verið að úthluta veiðiheimildum sem útgerðin getur sannarlega ekki veitt. Þeir sem gera út þessi minni togskip geta ekki veitt djúpkarfa, það er ekki hægt. Þessi krafa hefur lengi verið frá, eins og við segjum, stórútgerðum í landinu þar sem þær vilja skipta þessu svona upp. Það gefur alveg augaleið að þegar menn þurfa að skipta síðan við þá sem hafa gullkarfann sem þeir geta eingöngu veitt munu þeir þurfa að skipta við þá sem hafa veiðigetuna á miklu lægra hlutfalli. Það er mjög óskynsamlegt að gera þetta svona. Þetta benti ég á líka við 1. umr. um þetta mál. Því miður hefur ekki verið tekið tillit til þess í meðförum nefndarinnar. Vestur á Snæfellsnesi er t.d. eitt fyrirtæki sem er búið að sérhæfa sig í karfavinnslu og -veiðum. Það er með 1.000 tonna karfakvóta. Núna mun það fá úthlutað, ef þetta verður niðurstaðan, 300 tonnum af djúpkarfa sem það hefur engin tök á að veiða. Um það þarf ekkert að deila. Það mun ekki geta veitt þessi 300 tonn af djúpkarfa. Það er mjög bagalegt ef menn úthluta veiðiheimildum sem er algjörlega útilokað fyrir viðkomandi útgerðarfyrirtæki að nýta sér.

Síðan ætla ég að koma að þessari breytingu sem snýr að skötuselnum. Það er alveg rétt að það sem hefur gerst við hlýnun sjávar er að skötuselurinn breiðir úr sér, það er mjög einfalt. Menn geta tekið þau gröf sem til eru sem sýna hver breytingin á sjávarhita hefur orðið. Hitinn hefur færst norður með landinu og þá dreifir skötuselurinn úr sér.

Hins vegar er alveg ljóst að við aðstæður hafa komið upp ákveðin vandamál, þ.e. að menn hafa farið að veiða skötusel á þeim svæðum sem hann veiddist ekki áður og veiddist ekki þegar menn settu hann í kvóta. Þetta hefur skapað vandræði. Ég hef hins vegar sagt og mín skoðun er sú að þessi leið hér sé óskynsamleg vegna þess að í raun og veru fara menn að úthluta kannski einu sinni eða tvisvar. Við vitum að nokkur hundruð grásleppubátar munu geta nýtt sér að taka skötuselinn af því að þeir fá hann sem meðafla. Staðreyndin hefur verið sú að þeir sem gera út á grásleppu hafa þurft að skera þetta allt saman um borð, selja á veitingastaði, fylla allar frystikistur og þar fram eftir götunum. Þess vegna hef ég talið eðlilegra að setja svokallaða meðaflareglu einmitt gagnvart öðrum veiðum, eins og til að mynda gagnvart þeim sem eru ekki á beinum skötuselsveiðum, að þeir fengju að vera með ákveðna prósentu í sínum afla þannig að þeir gætu brugðist við með þessum hætti.

Það er reyndar þannig í dag með krókaaflamarkskerfið að þeir sem stunda það fá sjálfkrafa færðar inn frá Fiskistofu tegundir eins og skötusel, kola, sólkola, skarkola og þar fram eftir götunum sem þeir hafa ekki heimildir fyrir. Það hefði verið nær að færa þetta bara upp, setja einhverja prósentu og síðan gætu menn tekið umræðu um það hver prósentan ætti að vera. Ætti hún að vera 2% eða 1% eða 3%, eitthvað í þeim dúr, jafnvel hærri? Síðan miðuðu menn við að ef þeir tækju þetta inn í grásleppuveiðarnar yrði það að sjálfsögðu að vera miklu hærri prósenta vegna þess að menn eru þar eingöngu að landa hrognum. Menn yrðu að vega þetta og meta út frá þessu.

Skötuselurinn var allur við suðurströndina og synti ekki allur norður. Nú veiðist enn þá fullt af skötusel við suðurströndina. Það hefur aldrei komið fram í umræðunni hvernig stendur á því að þeir sem gera út á því svæði, þ.e. menn sem vilja hefja útgerð, vera í skötuselsveiðum frá Hornafirði, Þorlákshöfn eða Grindavík, eru útilokaðir úr þessu kerfi á heimasvæði sínu, þ.e. þeir verða að fara inn á eitthvert annað svæði til að geta tekið út úr þessu. Það finnst mér ekki réttlátt. Þó að viðmiðunin hafi verið til á þessu ákveðna svæði hefði verið langeðlilegast að þessum mönnum væri gefinn kostur á því að fara inn í þennan pott vegna þess að þeir hefðu aldrei verið á veiðum á meðan viðmiðunarárin voru og þeir fengju líka aðgang að þessum potti. Eins og sagt er hefur stofninn stækkað og þar fram eftir götunum. Það hefði verið mjög skynsamlegt að gera þetta. Mér finnst halla á rétt þeirra manna sem gera út frá þessum stöðum. Svo vantar líka inn í umræðuna hvað það þýðir í raun og veru í umgengninni. Það er hvorki tekið á því í þessu frumvarpi né nefndarálitinu. Hvað þýðir það og hvernig eru veiðarfærin sem skötuselsbátar eru með? Þeir draga einu sinni til tvisvar í viku. Hefðbundinn stór vertíðarbátur er með skötuselsnet upp á 40 kílómetra að lengd. Hvað þýðir það ef menn leggja slík net? Það verður mikil hætta á ákveðnum sóðaskap. Nú er ég ekki að fullyrða að svo yrði, en hættan er fyrir hendi.

Síðan er líka annað mjög mikilvægt sem menn hafa ekki rætt — eða ég ætla ekki að fullyrða að það hafi ekki verið rætt, en það kemur a.m.k. ekki hér fram — á hvaða tímabili erum við tilbúin að leyfa þeim sem stunda skötuselsveiðar að vera með netin í sjó? Nú er það algjörlega klár skoðun mín að það væri algjört brjálæði að leyfa t.d. skötuselsveiðar í Breiðafirði og jafnvel alveg suður undir Garðskaga, jafnvel sunnar, ég þekki það ekki eins vel, en a.m.k. í Breiðafirði og suður í Faxaflóa væri algjört brjálæði að leyfa bátum að stunda skötuselsveiðar frá u.þ.b. 15. desember til u.þ.b. 15. maí. Þeir sem hafa prófað þetta á þessum tíma og lagt netin sín þegar göngufiskurinn er að koma upp til hrygningar hafa lent í því að netin fyllast af stórum þorski.

Hvað þýðir það, virðulegi forseti? Það þýðir einfaldlega sóðaskap vegna þess að þessi net eru ekki dregin eins og þorskanet. Þau eru ekki dregin einu sinni á dag. Ef spáir illa eru þau dregin um borð. Kosturinn við það hjá þeim mönnum sem hafa stundað skötuselsveiðar við eðlilegar aðstæður er að þeir hafa alltaf getað haft veiðarfærin í sjó, þ.e. þeir þurfa ekki að draga nema einu sinni í viku. Ef kemur góð veiði draga þeir hugsanlega tvisvar í viku. Þeir eru með svo ofboðslegan netafjölda. Akkúrat við þau skilyrði þegar menn draga upp þorskanetin, það spáir brælu, vont veður, taka menn netin í land. Það er óvissa hvort þeir komist í þau, fiskurinn lemst í botninn og skemmist. Akkúrat við þau skilyrði hreyfir skötuselurinn sig. Alltaf eftir brælur er mesta veiðin. Ef það gerir brælu í þrjá daga, mikla kviku, veiðist skötuselurinn vel á eftir. Þess vegna er að mínu viti til að mynda algjört brjálæði að leyfa skötuselsveiðar á þessu svæði sem ég nefndi áðan, í Breiðafirði og langt suður í Faxaflóa, á þeim tíma þegar hrygningarfiskur er á slóðinni því að þar munu menn hugsanlega lenda illa í því af því að þetta er enginn smá netafjöldi. Menn geta lent í því að fá þarna tugi tonna af stórþorski sem er ónýtur þegar menn fara að draga netin vegna þess að þau liggja svo lengi.

Það er akkúrat þetta sem ég talaði um í upphafi, virðulegi forseti, við þurfum að ræða þessa hluti miklu dýpra en við gerum oft. Við erum oft í yfirborðskenndri umræðu, förum ekki alveg yfir staðreyndir og lendum í því, hvort heldur stjórnarliðar eða stjórnarandstæðingar, að hlusta ekki hver á rök annars. Það er nokkuð sem við verðum að taka sjávarútvegsumræðuna upp úr eins og alla umræðu hér á Alþingi.