138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst það sem ég kom inn á og hv. þingmaður spurði mig um í sambandi við verðmætin á makríl. Þetta var eitt af því sem ég nefndi í framsögu minni þegar við ræddum málið í 1. umr. að það væri mjög skynsamlegt að gefa það út að menn mundu miða veiðireynsluna við verðmæti en ekki tonn. Þetta er alveg hárrétt ábending frá hv. þingmanni.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan eru þeir tímar uppi í dag og hvort heldur það er núna eða einhvern tíma annars staðar verðum við að ganga um auðlindina með ábyrgum hætti. Við erum að sóa verðmætum í dag og það megum við ekki gera, það er algerlega útilokað að mínu viti að menn gangi þannig um auðlindina. En ástæðan er fyrst og fremst sú að menn eru að keppast við búa sér til veiðireynslu til að fá úthlutað og ætla svo í raun og veru að fara í þetta ábyrga kerfi eins og aflamarkskerfið er. Um það er ekki deilt. Þess vegna sagði ég í ræðu minni að ég gerði ekki stórar athugasemdir við þá forsjárhyggju hjá hæstv. ráðherra að stýra því inn í þennan farveg.

Þar sem hv. þingmaður spyr líka um þetta í sambandi við djúpkarfann og gullkarfann, er það alveg klárt í mínum huga að ef menn fara þá leið að úthluta þessu svona, þ.e. veiðiheimildum sem menn eru að fá í dag, fengju menn miðað við 35.000 tonn u.þ.b. einn þriðja í djúpkarfa og tvo þriðju í gullkarfa og það eru margar útgerðir sem munu ekki geta nýtt það. Þess vegna kallaði ég eftir því í 1. umr. að menn mundu, af því að nú eru til afladagbækur og hvernig þetta er skráð og það liggur alveg klárt fyrir hvaða aðilar hafa stundað veiðar á gullkarfa og hafa ekki getað veitt djúpkarfann, bara fá veiðiheimildir sínar í gullkarfa. En það sem liggur að baki þessu er að Hafrannsóknastofnun hefur viljað gera greinarmun á því hve mikið er verið að veiða úr hverjum stofni fyrir sig en það gefur augaleið að þarna er verið að úthluta veiðiheimildum til skipa sem geta ekki nýtt þær. Það er hlutur sem við eigum ekki að gera og ég tek undir með hv. þingmanni að við eigum að gera þetta með þeim hætti að menn fái veiðireynslu miðað við þær aflaheimildir sem þeir hafa verið veiða.