138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst liggja í orðum hv. þingmanns töluvert mikil ádeila á sjávarútvegsráðuneytið um að það beiti þessu ekki skynsamlega og af hyggindum. Ef það er svo að menn eru að veiða makríl villt og galið af því að þeir treysta á að fá veiðireynslu á kíló en ekki verðmæti, sýnir það að þetta eru ekki nægileg hyggindi. Að sjálfsögðu átti ráðuneytið að gefa það út eða ríkisstjórnin eða þeir sem um þetta véla að veiðireynslan yrði miðuð við verðmæti og þá er þessi vandi leystur. Ég held að aflamarkskerfið leiði alltaf til þess að menn nýti aflann skynsamlega og gæti þess að sóa ekki verðmætum af því að þeir megi ekki veiða nema ákveðinn fjölda af kílóum.

En varðandi djúpkarfann og gullkarfann, ég held að þetta sé sérstakt tilefni til þess að hv. sjávarútvegsnefnd komi saman aftur og fari í gegnum þetta, af því að það liggur í augum uppi að þetta er ósköp venjuleg skynsemi og ekkert annað.